Meistararnir völtuðu yfir botnliðið

Leikmenn Þórs/KA fagna í dag.
Leikmenn Þórs/KA fagna í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þór/KA kom sér aftur á topp Pepsi-deildar kvenna, að minnsta kosti tímabundið, eftir 9:1 stórsigur gegn FH í Pepsi-deild kvenna í fótbolta nú fyrr í dag. Liðið fer upp fyrir Breiðablik sem þó á leik til góða.

Leikurinn byrjaði rólega og eins og við mátti búast lágu gestirnir til baka á meðan Þór/KA réð ferðinni. Heimakonur náðu að brjóta ísinn á 18. mínútu þegar Andrea Mist skoraði með fínu skoti. Andrea skoraði svo aftur á 40.mínútu og því var staðan 2:0 í hálfleik.

Í seinni hálfleik brotnaði FH-liðið algjörlega og Þór/KA gjörsamlega gengu frá gestunum úr Hafnarfirði.

Lára Einarsdóttir kom heimakonum í 3:0 snemma í seinni hálfleik. Síðan hófst sýning frá Þór/KA. Þrjú mörk frá Stephany Mayor, tvö mörk frá Margréti Árnadóttur og eitt frá Söndru Maríu Jessen þýddi það að staðan var orðin 9:0. Alveg hreint ótrúlegar tölur á Akureyri.

FH-ingar klóruðu í bakkann á 89. mínútu þegar Helena Hálfdánardóttir skoraði. Það gladdi þó gestina úr Hafnarfirði lítið. Lokatölur 9:1.

Eftir leikinn er Þór/KA með 35 í stig í efsta sætinu. FH-ingar eru hins vegar í neðsta sætinu með sex stig. Fjórum stigum frá öruggu sæti og með ansi lélega markatölu eftir þennan leik.

Þór/KA 9:1 FH opna loka
90. mín. Leik lokið Ótrúlegum leik lokið hér á Þórsvelli. Þór/KA er komið á topp deildarinnar.
mbl.is