„Þetta er alltaf jafnsætt“

Leikmenn Breiðabliks fagna fyrsta marki leiksins sem Berglind Björg Þorvaldsdóttir …
Leikmenn Breiðabliks fagna fyrsta marki leiksins sem Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði. mbl.is/Valli

„Maður er í fótbolta fyrir þetta. Að vinna titla,“ sagði markadrottningin Berglind Björg Þorvaldsdóttir í samtali við mbl.is þegar hún var í miðjum fagnaðarlátum með Breiðabliki eftir að liðið tryggði sér bikarmeistaratitil kvenna í knattspyrnu með 2:1-sigri á Stjörnunni á Laugardalsvelli í kvöld.

„Þetta er alltaf jafnsætt. Ég vann síðast fyrir tveimur árum og þetta er alveg sama tilfinning og þá,“ sagði Berglind, en Blikar urðu síðast bikarmeistarar fyrir tveimur árum og voru nú að vinna sinn 12. bikarmeistaratitil.

Breiðablik var 2:0 yfir í hálfleik, gaf fá færi á sér í síðari hálfleik og sigldi sigrinum loks í hús. Sjálf skoraði Berglind fyrra mark Blika.

„Mér fannst þær byrja aðeins betur en eftir markið þá komumst við inn í þetta, settum annað mark eftir það og þá róaðist aðeins leikurinn. Við vorum stressaðar í byrjun en heilt yfir fannst mér þetta verðskuldað,“ sagði Berglind.

Aðeins þrír leikmenn í byrjunarliði Breiðabliks í kvöld byrjuðu bikarúrslitaleikinn fyrir tveimur árum, en hinir fjölmörgu ungu leikmenn sem hafa haldið uppi heiðri Blika í sumar sýndu engin veikleikamerki eða stress.

„Það var ekkert stress fyrir leikinn. Við töluðum um að spila bara okkar leik og ekki láta neitt trufla okkur. Mér fannst við tækla það mjög vel,“ sagði Berglind. Breiðablik er í góðri stöðu til þess að vinna tvennuna og Berglind segir að liðið festist ekki uppi í skýjum þrátt fyrir þennan titil.

„Alls ekki. Nú er bara næsti leikur á þriðjudaginn og við ætlum að klára deildina,“ sagði Berglind Björg Þorvaldsdóttir við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert