Fylkismenn upp úr fallsæti

Ólafur Ingi Skúlason og Cédric D'Ulivo eigast við í dag.
Ólafur Ingi Skúlason og Cédric D'Ulivo eigast við í dag. mbl.is/Valli

Fylkir kom sér upp úr fallsæti í Pepsi-deild karla í fótbolta með 1:1-jafntefli á móti FH á heimavelli sínum í Árbænum í kvöld. FH missti hins vegar af mikilvægum stigum í baráttu sinni um Evrópusæti. 

FH var mikið meira með boltann í upphafi leiks, en það gekk illa að skapa sér færi á móti Fylkisliði sem var mjög aftarlega á vellinum og gaf fá færi á sér. Hinum megin ógnaði Fylkir ekki neitt og það gekk illa að senda boltann á milli manna.

Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn opnaðist leikurinn örlítið og átti Davíð Þór Viðarsson gott skot í slána á 31. mínútu. Aðeins mínútu síðar skoraði franski bakvörðurinn Cédric D'Ulivo er hann fékk boltann inn í teig og skoraði með lausu skoti í varnarmann og í netið.  Staðan í hálfleik var því 1:0, FH í vil.

Það var allt annað Fylkislið sem mætti til leiks í seinni hálfleik og jöfnunarmarkið kom strax á 47. mínútu. Ólafur Ingi Skúlason átti þá flotta sendingu á Ragnar Braga Sveinsson sem lagði boltann á Valdimar Þór Ingimundarson sem gat varla annað en skorað. Eftir markið voru Fylkismenn sterkari, en það gekk illa að skapa sér alvörufæri til að komast yfir.

Hinum megin ógnaði FH lítið, þangað til Viðar Ari Jónsson átti skot rétt yfir markið á 69. mínútu. Um tíu mínútum síðar átti Steven Lennon svo fastan skalla að marki af stuttu færi en Aron Snær Friðriksson í marki Fylkis varði virkilega vel. Hinum megin komu fínir kaflar hjá Fylkismönnum, en illa gekk að skapa sér góð færi, úr fínum stöðum og voru því ekki fleiri mörk skoruð. 

Fylkir 1:1 FH opna loka
90. mín. Þung pressa hjá FH núna. 90 sekúndur eftir af uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert