„Þeir eru nógu góðir“

Óli Stefán Flóventsson.
Óli Stefán Flóventsson. Sigfús Gunnar Guðmundsson

Grindavík og Stjarnan gerðu í kvöld 2:2 jafntefli í Peps-deild karla í knattspyrnu en leikurinn fór fram á Grindavíkurvelli. Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, sagðist vera svekktur að hafa ekki tekið öll stigin miðað við frammistöðu síns liðs:

„Ég er afskaplega súr að vinna ekki leikinn miðað við þá stöðu sem við fáum og færi og bara fullkomna stjórn á leiknum með og án bolta. Við vorum vel undirbúnir fyrir allt sem þeir buðu upp á í dag. Stjarnan er með mjög öflugt og líkamlegt lið og sterkir í föstum leikatriðum. Þeir ógnuðu okkur þar í dag en annað náðum við að koma í veg fyrir. Miðað við frammistöðu drengjanna er ég súr að stigin hafi ekki verið þrjú en úr því að staðan var orðin svona þá er ég mjög þakklátur fyrir verðskuldað stig.“

Spurður út í baráttuna um 4. sætið sem gefur þátttökurétt í Evrópu sagði Ólafur að frammistaða síns liðs í kvöld sýni að lið hans eigi fullt erindi í baráttuna:

„Þetta stig og frammistaðan í dag svarar þeirri spurningu sem ég spurði strákana á fyrstu æfingu eftir Valsleikinn, teljið þið ykkur nógu góða til að eiga erindi í einhvers konar bardaga í þessari deild? Og ég krafðist þess að drengirnir svöruðu því bæði með æfingavikunni sem við vorum í og [með því að] skila þeirri vinnu inn í leikinn. Þetta stig og þessi frammistaða svaraði þeirri spurningu finnst mér og það er það sem stendur upp í dag. Þeir eru nógu góðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert