„Verður barátta fram á síðasta leikdag“

Leikmenn KR fagna marki Kennie Chopart í dag.
Leikmenn KR fagna marki Kennie Chopart í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Rúnar Kristinsson var ánægður með sína menn eftir 1:0 sigur gegn KA í 17.umferð Pepsi-deildar karla nú í dag. Sigurinn var mikilvægur fyrir KR-inga í baráttunni um fjórða sæti deildarinnar.

„Þetta mikilvægur sigur, erfiður leikur að spila enda er KA með skipulagt og sterkt lið. Við skoruðum þetta eina mark sem skipti sköpum í leiknum og fannst við vera sterkari aðilinn. Sérstaklega í síðari hálfleik.“

„Í síðari hálfleik stjórnuðum við leiknum nánast frá fyrstu til síðustu mínútu og skorum mjög gott mark eftir gott spil. Við vorum búnir að leita lengi að þessari opnun sem síðan kom og Kennie kláraði eins og ekta framherji á að gera. Frábært mark hjá honum og verðskuldaður sigur að mínu mati.“

Rúnar var ánægður með mark Kennie Chopart sem skoraði með góðu utanfótarskoti:

„Hann hefur kannski haft orð á sér fyrir að vera ekki góður að klára færin en í dag sýndi hann hvers hann er megnugur þegar hann heldur ró sinni. setur boltann utanfótar frá markmanninum, virkilega vel klárað. Þessi strákur hleypur og berst fyrir þig í 90 mínútur og það er gulls ígildi að hafa hann.“

Spurður um baráttuna um fjórða sætið sem er fram undan sagði Rúnar:

Það er mikil barátta um þetta fjórða sæti og með tapi í dag hefðu KA-menn farið upp fyrir okkur og gert okkur erfitt fyrir en nú náum við að hrista þá af okkur, að minnsta kosti í eina umferð. Þetta verður barátta fram á síðasta leikdag og mörg lið sem eru að berjast um þetta fjórða sæti, ég held að efstu þrjú sætin séu nánast komin. Við erum bara að einbeita okkur að þessu fjórða sæti og það yrðum við ánægðir með.

Rúnar Kristinsson og Bjarni Guðjónsson á hliðarlínunni á Akureyrarvelli í …
Rúnar Kristinsson og Bjarni Guðjónsson á hliðarlínunni á Akureyrarvelli í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert