Hættum að vera hræddir

Halldór Smári Sigurðsson.
Halldór Smári Sigurðsson. mbl.is/Valli

„Þetta var ógeðslegt,“ sagði Halldór Smári Sigurðsson, fyrirliði Víkings R. í kvöld, ómyrkur í máli eftir 2:2-jafnteflið við Fjölni í Pepsi-deildinni þar sem Fjölnismenn jöfnuðu metin á 90. mínútu.

„Fyrir lið sem hefur verið í veseni undanfarið og ekki gengið nægilega vel, þá er það alveg ótrúlega sárt að fá á sig svona mark á 90. mínútu. Það hefði verið ótrúlega gott að komast í sex stiga fjarlægð frá Fjölni, með fimm leiki eftir, en við verðum samt að hafa í huga að í hálfleik í kvöld þá hefðum við þegið eitt stig. Við erum þó enn þá með þriggja stiga forskot á þá [Fjölnis- og Fylkismenn] og verðum bara að halda áfram,“ sagði Halldór Smári, en Víkingar eru í 9. sæti og eiga eins og hann segir enn þriggja stiga forskot á Fjölni og Fylki.

Fjölnismenn voru 1:0 yfir eftir fyrri hálfleik í kvöld og klúðruðu víti um miðjan seinni hálfleik, eftir að Víkingar höfðu jafnað metin í 1:1. Arnþór Ingi Kristinsson, sem lék við hlið Halldórs í hjarta Víkingsvarnarinnar, kom gestunum svo yfir þegar enn voru 20 mínútur til leiksloka en það dugði ekki til sigurs.

„Fyrri hálfleikurinn var ekkert sérstakur, en í seinni hálfleiknum komum við út og hættum einhvern veginn að vera hræddir. Það kom bara barátta í þetta hjá okkur, og hún skilaði tveimur mörkum. Þau komu einmitt eftir svona barning, menn að flikka boltanum og Arnþór að skora með tvo menn í sér. Það er stígandi í okkar leik, en við þurfum að fara að vinna,“ sagði Halldór.

Sölvi Geir Ottesen er enn frá keppni vegna meiðsla og Halldór kvaðst einfaldlega ekki vita hve langt væri í að hann sneri aftur til leiks. Annar miðvörður, Gunnlaugur Fannar Guðmundsson, tók út leikbann og því varð miðjumaðurinn Arnþór Ingi að taka sér stöðu við hlið Halldórs í vörninni. Það hlutverk leysti Arnþór Ingi afar vel:

„Hann var rosalega góður í dag. Það hafa verið nokkrar „róteringar“ með hafsentastöðuna og við þurfum að fara að fá einhvern stöðugleika. Arnþór sýndi í dag að hann getur vel spilað þetta, og ég held að við getum alveg byggt á þessu þar til að Sölvi kemur aftur,“ sagði Halldór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert