Vissi ekki að ég hefði skorað

Guðmundur Karl Guðmundsson kom Fjölnismönnum til bjargar í kvöld.
Guðmundur Karl Guðmundsson kom Fjölnismönnum til bjargar í kvöld. mbl.is/Ómar

„Það var lífsnauðsynlegt að halda þeim alla vega í augsýn. Úr því sem komið var þá er þetta ágætt en við fengum tvö léleg mörk á okkur,“ sagði Guðmundur Karl Guðmundsson, hetja Fjölnismanna, eftir 2:2-jafnteflið við Víking R. í Pepsi-deildinni í fótbolta í kvöld.

Guðmundur Karl jafnaði metin á 90. mínútu og þar með komst Fjölnir upp fyrir Fylki á markatölu, úr fallsæti. Þar að auki héldu Fjölnismenn sér þremur stigum á eftir Víkingum, með marki Þorlákshafnarbúans:

„Ég slapp inn fyrir rétt fyrir markið, en þá náðu þeir að bjarga á línu. Svo var eitthvert klafs þarna í teignum, það kemur skalli og ég fleygi mér bara í átt að markmanninum og fæ eitthvert högg, og vissi ekki einu sinni að ég hefði skorað. Ég man eiginlega óljóst eftir þessu,“ sagði Guðmundur Karl um markið mikilvæga. Hann var á því að Fjölnismenn hefðu getað spilað mun betur úr sínum spilum í kvöld, og undir það er óhætt að taka:

„Mér fannst við eiga að vera búnir að skora fleiri mörk og gera út um leikinn í fyrri hálfleik. Við vorum klaufar að gera það ekki og það er kannski saga sumarsins, að við nýtum ekki sénsana sem við fáum. Þegar það gengur svona illa í deildinni þá virðist það koma í bakið á manni. Þetta var leiðinlegt hjá okkur fyrsta hálftímann í seinni hálfleik, en við hefðum þó getað gert út um leikinn þegar við fengum vítaspyrnu. Þetta fellur svolítið á móti okkur. Við verðum að koma enn sterkari í þá leiki sem eftir eru og bjarga rassgatinu á sjálfum okkur,“ sagði Guðmundur Karl, og tók undir að gengið í sumar hefði einfaldlega slæm áhrif á leikmenn Fjölnisliðsins:

„Ég hugsa það. Að mínu mati erum við betri en við höfum verið að sýna, þó að maður sé náttúrulega aldrei betri en maður sýnir. Það sest á sálina hjá mönnum að hafa ekki unnið leik í háa herrans tíð og trúin minnkar, þó að hún eigi ekki að gera það. Við verðum að reyna að keyra hana í botn núna, hafa trú á verkefninu og klára það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert