Ekki nóg að vera góður og fá engin stig

Ægir Jarl með boltann á Hlíðarenda í kvöld.
Ægir Jarl með boltann á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Hari

„Þetta er ótrúlega pirrandi, við komum til baka, fáum á okkur mark í andlitið og svo gerist það aftur,“ sagði svekktur Ægir Jarl Jónasson, leikmaður Fjölnis, eftir 5:3-tap gegn Íslandsmeisturum Vals í markaleik á Hlíðarenda í Pepsi-deildinni í kvöld.

„Við erum alltaf við það að komast inn í leikinn og börðumst til enda, við hefðum hæglega getað skorað meira en gerum svo klaufaleg, einföld mistök. Valur er þannig lið, þeir refsa öllum mistökum.“

Fjölnismenn voru sterkari aðili leiksins í fyrri hálfleik en rétt fyrir hlé skoraði Sigurður Egill Lárusson stórkostlegt mark af löngu færi. Ægir sagði Fjölnismenn lítið hafa geta gert við því.

„Það er lítið hægt að gera við þessu, hann slummar honum bara upp í skeytin og við börðumst bara áfram og til enda. Við getum tekið eitthvað jákvætt úr þessu en ég hefði til dæmis átt að skora eitthvað meira í þessum leik,“ en Ægir skoraði eitt marka Fjölnis og fékk nokkur álitleg færi til að bæta við eigin markareikning.

Fjölnismenn hafa nokkrum sinnum í undanförnum leikjum spilað ágætlega en ekki haft erindi sem erfiði. Ægir segir það einfaldlega ekki nóg, ætli liðið sér að vera í Pepsi-deildinni.

„Það er ekki nóg að vera alltaf góðir í leikjum og fá engin stig. Þetta snýst um stigasöfnun og við erum að klikka þar. Nú verðum við að fara sækja þrjú stig ef við ætlum að vera í þessari deild.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert