Jafnt í risaleiknum í Garðabæ

Dion Acoff og Jósef Kristinn Jósefsson berjast um boltann í …
Dion Acoff og Jósef Kristinn Jósefsson berjast um boltann í Garðabæ í kvöld. mbl.is/Eggert

Valur og Stjarnan skiptu með sér stigunum þegar liðin áttust við í risaslag Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Garðabæ í kvöld. Lokatölur urðu 1:1, en með sigri hefði Valur getað stigið stórt skref í átt að titlinum. Garðbæingar voru hins vegar ekki á því að hleypa Valsmönnum of langt fram úr sér fyrir lokasprettinn.

Leikurinn var mikil refskák þar sem ekkert var gefið eftir, enda má segja að tímabilið hafi verið undir. Valsmenn komust yfir strax á 13. mínútu þegar Kristinn Freyr Sigurðsson skoraði með skoti úr teignum eftir að hafa fengið boltann frá Dion Acoff. Staðan 1:0 fyrir Val.

Baráttan var í fyrirrúmi á meðan Stjörnumenn unnu sig jafnt og þétt vel inn í leikinn og uppskáru jöfnunarmark á 35. mínútu. Eftir aukaspyrnu Hilmars Árna Halldórssonar barst boltinn á Eyjólf Héðinsson sem skaut viðstöðulausu skoti upp í vinkilinn og jafnaði metin. Glæsilegt mark og staðan 1:1 í hálfleik.

Leikurinn var galopinn eftir hlé og sóttu liðin stíft. Þegar líða tók á virtust leikmenn beggja liða farnir að verða hræddir um að gera mistök og voru varkárir í sínum aðgerðum. Aftur færðist fjör í leikinn undir lokin og björguðu heimamenn meðal annars nánast á línu þegar skammt var eftir þegar Andri Adolphsson komst í gegn. Þá átti Hilmar Árni Halldórsson tvær góðar tilraunir úr aukaspyrnum fyrir Stjörnuna, en allt kom fyrir ekki.

Jafntefli niðurstaðan en frábær skemmtun fyrir framan rúmlega 1.700 áhorfendur í Garðabæ. Eftir jafnteflið er Valur með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar þegar fjórum umferðum er ólokið. Það má því búast við hörkuspennu allt fram í síðustu umferðina.

Stjarnan 1:1 Valur opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert