ÍA komst aftur á toppinn

Skagamenn eru á toppi deildarinnar.
Skagamenn eru á toppi deildarinnar. Ljósmynd/Ómar Óskarsson

ÍA komst aftur á toppinn á Inkasso-deildar karla í fótbolta með 3:2-sigri á Magna í hörkuleik á Grenivík í dag. Magni er hins vegar enn í botnsætinu. 

Stefán Teitur Þórðarson kom ÍA yfir strax á áttundu mínútu en á 14. mínútu var staðan orðin 1:1 er Lars Óli Jessen jafnaði. Mínútu síðar voru Skagamenn hins vegar aftur komnir yfir með marki Jeppe Hansen og var staðan í hálfleik 2:1. 

Stefán Teitur skoraði annað markið sitt strax í upphafi síðari hálfleiks, áður en Kristinn Þór Rósbergsson minnkaði muninn á 48. mínútu en fleiri urðu mörkin ekki.

ÍA er með 43 stig á toppi deildarinnar og komst á ný uppfyrir HK með sigrinum. HK er með 42 stig í öðru sæti þegar þremur umferðum er ólokið. Þróttur er með 35 stig, Víkingur Ó. 35 og Þór 34 en Víkingur og Þór mætast í Ólafsvík síðdegis. Magni er áfram með 13 stig á botninum og fjórum stigum frá því að komast úr fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert