Blanda af seiglu, reynslu og heppni

Daníel Laxdal úr Stjörnunni.
Daníel Laxdal úr Stjörnunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum bara ömurlegir í fyrri hálfleik og það lá heldur betur á okkur,“  sagði Daníel Laxdal, varnarjaxl Stjörnunnar, eftir 3:1 sigur á Fjölni í Grafarvoginum í dag þegar fram fór 19. umferð af 22 í efstu deild karla í fótbolta, Pepsi-deildinni.

Garðbæingar þurftu að hafa mikið fyrir hlutunum.  „Við ætluðum að koma kolvitlausir í leikinn, sem var rosalega erfiður en svo gengur stundum ekki allt upp.  Mér fannst við betri í seinni hálfleik en Fjölnir var ekki eins og lið sem á í fallbaráttu.  Ég held að svo hafi skilað sér seigla, reynsla og heppni – svona allt í bland.  Þegar verið er að berjast um titil þarf allt að ganga upp og það gerðist í dag.  Veit reyndar ekki af hverju dómarinn dæmdi markið okkar af en ég er mjög sáttur með þrjú stig.“

Þrír leikir eru eftir af mótinu og Valur situr í efsta sætinu með 40 stig, einu meira en Garðbæingar.   „Við eigum enn þrjá leiki eftir í mótinu þó að leikurinn við Val hafi verið kallaður úrslitaleikur og nú hefst barátta allt til enda mótsins, er það ekki bara gaman fyrir alla?“ sagði Daníel í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert