FH-ingar léku KR grátt

FH-ingar fagna Robbie Crawford, markaskorara fyrsta marks leiksins.
FH-ingar fagna Robbie Crawford, markaskorara fyrsta marks leiksins. mbl.is/Eggert

FH-ingar eru komnir að hlið KR-inga í fjórða til fimmta sæti Pepsi-deildar karla í knattspyrnu eftir stórsigur, 4:0, í uppgjöri liðanna í lokaleik 19. umferðar í Kaplakrika í dag. Robbie Crawford skoraði tvö mörk, Jákup Thomsen og Þórir Jóhann Helgason eitt hvor.

Bæði lið eru nú með 30 stig, KR er enn yfir á betri markatölu þrátt fyrir þetta stórtap, en þau berjast nú harðri baráttu um fjórða sætið og keppnisrétt í undankeppni Evrópudeildarinnar næsta sumar.

FH-ingar náðu forystunni strax á 11. mínútu. Steven Lennon komst í dauðafæri á markteig eftir sendingu Hjartar Loga Valgarðssonar frá vinstri, skot hans var varið en Robbie Crawford fylgdi á eftir og þrumaði boltanum í netið af stuttu færi, 1:0.

FH sótti meira eftir markið en síðan komust KR-ingar smám saman inn í leikinn, voru meira með boltann það sem eftir lifði hálfleiksins og áttu nokkrar ágætar marktilraunir. Kennie Chopart komst í dauðafæri á 29. mínútu, Gunnar Nielsen varði glæsilega frá honum, Björgvin Stefánsson fylgdi á eftir en FH-ingur bjargaði með því að kasta sér fyrir skot hans.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks fékk Jákup Thomsen boltann frá Hirti Loga rétt utan vítateigs KR, stakk sér skemmtilega framhjá varnarmanni, inn í teiginn vinstra megin og renndi boltanum í hornið fjær, 2:0. Falleg tilþrif hjá Færeyingnum sem náði þar með loks að skora sitt fyrsta mark fyrir FH.

KR-ingar héldu áfram að sækja eftir hlé en FH-ingar héldu áfram að refsa þeim. Eftir laglega sókn á 55. mínútu fékk Jákup boltann upp að endamörkum hægra megin, renndi út að vítateigslínunni á Crawford sem skoraði með viðstöðulausu skoti í hornið fjær, 3:0.

Þar með voru úrslitin í raun ráðin. FH var með allt í hendi sér. Á 84. mínútu kom Þórir Jóhann Helgason inn á hjá liðinu í fyrsta skipti í efstu deild og á 86. mínútu skoraði hann, 4:0, eftir sendingu Hjartar Loga frá endamörkum vinstra megin og klafs í markteig KR-inga.

FH varð fyrir áfalli í lokin þegar miðvörðurinn Eddi Gomes var borinn af velli en ekki er ljóst hversu alvarleg meiðsli þar er um að ræða.

FH 4:0 KR opna loka
90. mín. Hálfleikur Afar sannfærandi sigur FH-inga sem þar með ná KR að stigum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert