Maður blindast af úrslitunum

Ólafur H. Kristjánsson þjálfari FH.
Ólafur H. Kristjánsson þjálfari FH. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Ólafur H. Kristjánsson þjálfari FH-inga sagði að sitt lið hefði ekki endilega átt sinn besta leik á tímabilinu í dag þótt 4:0-stórsigur á KR í Pepsi-deild karla í knattspyrnu hefði verið niðurstaðan í viðureigninni í Kaplakrika.

„Fótboltinn er skrýtinn leikur. Í dag samþykktum við að KR væri meira með boltann og þá snýst þetta við. Ég vil kannski finna jafnvægið á milli þess að vera með boltann sjálfur og andstæðingurinn sé með hann, en auðvitað hjálpaði það okkur að við skoruðum snemma í leiknum. Það létti smá pressu af okkur, og svo bættum við marki við í stað þess að fá mark í andlitið eins og hefur svo oft gerst í sumar. 

Það var margt í þessum leik sem var á öndverðu við það sem hefur verið hjá okkur í sumar. En þetta var síðasti séns fyrir okkur til að vera með í þessari baráttu um fjórða sætið,“ sagði Ólafur við mbl.is eftir leikinn.

Var þetta ykkar besta frammistaða í sumar?

„Ja, maður blindast alltaf af úrslitunum. Þegar maður sér 4:0 þá segirðu að þetta hljóti að hafa verið hrikalega góður leikur hjá FH-liðinu. Það sem var gott hjá okkur í dag var að varnarleikurinn var gríðarlega sterkur, við gáfum ekki á okkur færi og nýttum þau færi sem við fengum. Við höfum átt betur spilaða leiki en þar höfum við ekki náð fram úrslitum. 

Leikurinn var jafn að mörgu leyti, mér fannst KR spila vel í fyrri hálfleik og valda okkur töluverðum vandræðum en sem betur fer fórum við ekki í það að æða út úr stöðum, héldum 1:0-forskotinu sem gaf okkur möguleikana á komast í 2:0 þegar Jákup skoraði. Við vorum búnir að tala um að hann eða Lennon þyrftu að komast í þessa stöðu, einn gegn einum á móti haffsentinum. 

Úrslitin blöffa oft, ef þú vinnur 1:0 eða 2:0 finnst þér frammistaðan oft frábær fyrst á eftir en svo var hún kannski ekki frábær. Á hinn bóginn geturðu átt glimrandi leik og tapað. Ég þarf því að skoða aðeins betur gæðin í þessum leik - en það sem skipti máli var að fá þrjú stig og auðvitað var það bónus að skora fjögur mörk. KR er hins vegar áfram fyrir ofan okkur,“ sagði Ólafur H. Kristjánsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert