Seigla Stjörnunnar skilaði sér

Stjörnumennirnir Eyjólfur Héðinsson og Guðmundur Steinn Hafsteinsson og Fjölnismaðurinn Þórir …
Stjörnumennirnir Eyjólfur Héðinsson og Guðmundur Steinn Hafsteinsson og Fjölnismaðurinn Þórir Guðjónsson fylgjast með flugi boltans í dag. mbl.is/Eggert

Gríðarleg barátta Fjölnismanna dugði skammt gegn Stjörnunni í dag og 3:1 sigri Garðbæinga í Grafarvoginum í Pepsi-deild karla í fótbolta. Stjarnan var í toppsætinu um stutta stund, en jöfnunarmark Vals á Akureyri þýddi að Stjarnan er enn í öðru sæti, stigi á eftir Val. Fjölnir er hins vegar í grimmri botnbaráttu. 

Heimamenn mættu vígreifir og þó að Garðbæingar hafi átt von á slíkri byrjun þurftu þeir að hafa fyrir því í vörninni því Þórir Guðjónsson úr Fjölni átti bæði skot og skallabolta í góðu færi.    Stjarnan sat af sér orrahríðina og fór svo að fikra sig framar, sem lauk með góðu skallamarki Guðmundar Steins Hafsteinssonar á 17. mínútu.   Fjölnismönnum brá aðeins og bitu svo í skjaldarrendur og á 25. mínútu skoraði Þórir af stuttu færi eftir fyrirgjöf Ægis Jarls Jónassonar, sem braust af miklu harðfylgi upp hægri kantinn upp að endamörkum.  Það segir sína sögu um fyrri hálfleik að Fjölnir náði 6 skotum og þremur hornum á móti aðeins þremur skotum Garðbæinga.

Síðari hálfleikur byrjaði með látum þegar bæði lið ætluðu sér að ná undirtökunum en það var lengi meira af kappi en forsjá.   Þegar á leið þyngdust sóknir Garðbæinga þar til á 64. mínútu að Guðjón Baldvinsson skoraði þegar hann þrumaði í gegnum þvögu í vítateig Fjölnis.   Heimamenn tóku meira á en í því fólst meiri harka og þrjú gul spjöld fóru á loft á stuttum tíma.   Stjarnan fékk síðan upplögð færi því þrjú skot smullu í markmanni eða leikmönnum Fjölnis við markteigslínuna.  Boltinn fór síðan í markið en dómari dæmdi brot.  Ævar Ingi Jóhannesson gerði síðan út um leikinn með þriðja marki Stjörnunnar með spretti frá miðju inn að markteig áður en hann skaut undir markvörð Fjölnis.  Mikill sprettur og leikmenn Fjölnis voru hreinlega of þreyttir til að ná að koma við hann.

Framundan er þriggja leikja einvígi Stjörnunnar og Vals um sigur í deildinni en það má samt ekki gleyma Blikum, sem eru skammt undan.  Að sama skapi má Fjölnir ekki misstíga  sig neitt, fall blasir þá við Grafarvoginum.

Fjölnir 1:3 Stjarnan opna loka
90. mín. Guðjón Baldvinsson (Stjarnan) á skot sem er varið Aukaspyrna utan teigs og vel varið í horn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert