Fer stoltur og þakklátur frá borði

Freyr Alexandersson huggar Guðbjörgu Gunnarsdóttur í leikslok.
Freyr Alexandersson huggar Guðbjörgu Gunnarsdóttur í leikslok. mbl.is/Eggert

Freyr Alexandersson var skiljanlega svekktur þegar mbl.is tók hann tali eftir að hann stýrði íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu í síðasta sinn í 1:1-jafnteflinu við Tékka á Laugardalsvelli í dag. Úrslitin þýða það að Ísland kemst ekki í umspil um laust sæti á HM.

„Þetta var svipað og ég bjóst við, hörkuleikur en við fengum fleiri færi en ég átti von á. Þess vegna er ég ótrúlega svekktur að við skyldum ekki skora fleiri mörk. Þvílík og önnur eins færi sem við fáum hérna. Við förum bara illa með þau, gefum þetta mark og það er ótrúlega svekkjandi,“ sagði Freyr við mbl.is.

Tékknesku leikmennirnir fóru svolítið í taugarnar á íslenska liðinu þegar á leið með því að tefja og hægja á leiknum.

„Mér fannst liðið höndla það vel miðað við hvað það var mikið undir. Dómarinn var ekki nægilega góð til þess að höndla svona leik, hún hafði bara ekki þekkinguna til þess að höndla svona. Og miðað við það fannst mér stelpurnar takast ágætlega á við þetta,“ sagði Freyr.

Ísland jafnaði leikinn þegar nokkrar mínútur voru eftir og fékk svo vítaspyrnu í uppbótartíma sem fór forgörðum. Hvað fór í gegnum huga Freys þegar vítið var dæmt?

„Að við værum að fara í umspilið, ég viðurkenni það alveg. Ég var alveg viss um að við myndum skora úr vítinu, en þetta var frábærlega varið hjá henni. Við áttum bara ekki að fara áfram, það er ljóst.“

Hallbera Guðný Gíslasdóttir var niðurlút í leikslok.
Hallbera Guðný Gíslasdóttir var niðurlút í leikslok. mbl.is/Eggert

„Passið hver upp á aðra“

Freyr var í síðasta mánuði ráðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari karla og var löngu ákveðið að þetta væru síðustu verkefni hans með kvennaliðið. Karlarnir spila úti gegn Sviss á laugardag og það hefur því verið mikið að gera hjá Frey.

„Ég var bara með hugann með þetta verkefni. Þetta hefur verið góð vika, leikmenn lögðu sig alla fram vitandi að við værum að fara í tvo erfiða leiki. Það eru mikil vonbrigði að hafa ekki komið okkur í umspilið,“ sagði Freyr.

Það var mikið svekkelsi yfir liðinu í leikslok en Freyr tók stuttan fund með leikmönnum á vellinum eftir leik. Hvað fór þar fram?

„Bara að minna þær á gildin okkar. Við erum í þessu saman, það eru engir skúrkar hérna heldur erum við liðsheild. Það þýðir ekki að einhver einn eigi að taka alla ábyrgð á sig eða benda á einhvern annan. Passið bara hver upp á aðra, það er það sem ég sagði.“

Berglind Björg Þorvalsdóttir, Selma Sól Magnúsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og …
Berglind Björg Þorvalsdóttir, Selma Sól Magnúsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Freyr Alexandersson þakka stuðninginn. mbl.is/Eggert

Þetta hefur verið frábær tími

En hvernig er fyrir Frey að kveðja kvennalandsliðið núna. Blendnar tilfinningar?

„Já, mjög blendnar. En það er kominn tími á þetta eins og ég vissi fyrir svolitlu. Þetta er mjög erfitt, mér þykir mjög vænt um þær,“ sagði Freyr og bætti því við að ef Ísland hefði komist í umspilið hefði hann haldið áfram út það verkefni.

Nú þegar Freyr hefur stýrt kvennalandsliðinu í síðasta sinn, er of snemmt að gera upp þennan tíma?

„Þetta hefur verið frábær tími, frábært fólk að vinna með og við höfum tekið fullt af skrefum fram á við. Ég fer mjög stoltur og þakklátur frá borði. Þetta er fyrst og fremst bara búið að vera gaman og ég er mjög þakklátur,“ sagði Freyr Alexandersson við mbl.is, en hann heldur út á morgun til móts við karlalandsliðið í Sviss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert