Kemur í ljós með nýjum landsliðsþjálfara

Sif Atladóttir í leiknum gegn Þjóðverjum á laugardaginn.
Sif Atladóttir í leiknum gegn Þjóðverjum á laugardaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Stundum gerist svona og við eigum ekki góðan leik,“ sagði Sif Atladóttir, landsliðskona í knattspyrnu, við mbl.is eftir að Ísland náði ekki að tryggja sér sæti í umspili um sæti á HM næsta sumar eftir 1:1-jafntefli við Tékkland á Laugardalsvelli í dag.

Vonbrigðin voru mikil hjá íslenska liðinu í leikslok, en vítaspyrna fór meðal annars forgörðum í uppbótartíma.

„Það er ekkert verið að horfa á einn eða neinn, við erum lið og vinnum og töpum sem hópur. Við erum liðsheild og stöndum við bakið hver á annarri,“ sagði Sif við mbl.is, en íslenska liðið fékk sannarlega færin til þess að fá meira út úr þessum leik.

„Já, en stundum vill boltinn ekki inn. Þetta var ótrúlegur stöngin-út-dagur í dag,“ sagði Sif, en það kom henni ekkert á óvart hvernig Tékkarnir voru farnir að tefja þegar á leið.

Erfiður dagur en við héldum áfram

„Við vitum alveg hvernig þær spila og við vitum út á hvað þetta gengur hjá þeim. Þær fundu greinilega línuna snemma og vissu hvað þær gætu gert. Mér fannst við höndla það vel, en síðustu tíu mínúturnar vorum við farnar að láta þetta fara í taugarnar á okkur. Við héldum samt áfram þótt þetta væri erfiður dagur hjá okkur,“ sagði Sif.

Ísland tapaði fyrir Þýskalandi fyrir fullum Laugardalsvelli á laugardag í mikilli stemningu, en leiktíminn í dag var heldur óheppilegur. Greindi Sif eitthvert spennufall á milli leikja?

„Nei, mér leið ekki þannig. Þegar við fórum upp á hótel á laugardag ræddum við Þýskalandsleikinn og vissum að Tékkar myndu verða erfiðir. Mér fannst spennustigið vera fínt í undirbúningnum, en það er stutt á milli leikja og þetta er erfitt. Svona er þetta, en við reyndum allavega í 95 mínútur,“ sagði Sif.

Ekkert unglamb en líður vel

Það eru breytingar fram undan hjá landsliðinu. Freyr Alexandersson er að láta af störfum sem landsliðsþjálfari. Hvernig horfir framhaldið við Sif, sem er einn reyndasti leikmaður liðsins?

„Ég er ekkert unglamb, en líður vel. Ég mun setjast niður með fjölskyldunni og svo kemur í ljós hvað ég geri. Það veltur líka allt á nýjum þjálfara, hvort hann vill nota mig eða ekki,“ sagði Sif. En hvernig líst henni á ungu leikmennina sem hafa verið að koma upp í landsliðinu síðustu misseri?

„Ég er mjög spennt fyrir þeim. Við erum með góð yngri landslið og framtíðin er björt. Ég vona að við fáum fleiri atvinnumenn á næstu árum, það skiptir miklu máli og getur þroskað okkar landslið upp á næsta stig. Ég er mjög spennt og hlakka til að fylgjast með,“ sagði Sif Atladóttir við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert