Mikið stökk að fara til Vejle

Felix Örn Friðriksson
Felix Örn Friðriksson mbl.is/Eggert Jóhannesson

U21 árs lið karla í knattspyrnu mætir Eistum í undankeppni Evrópumótsins á Kópavogsvelli í dag en íslenska liðið á eftir að spila fjóra leiki í undankeppninni sem allir fara fram hér á landi.

Íslendingar eru í fjórða sæti í riðlinum en eru í baráttu við Slóvaka og N-Íra um að ná öðru sætinu sem gefur þátttökurétt í umspili. Ljóst er að Spánverjar vinna riðilinn en þeir eru með fullt hús stiga. Ísland mætir svo Slóvökum á Alvogen-vellinum á þriðjudaginn og tveir síðustu leikirnir fara fram í næsta mánuði.

Mbl.is ræddi við bakvörðinn Felix Örn Friðriksson fyrir æfingu U21 árs landsliðsins á Kópavogsvelli í vikunni en Felix er einn fjölmargra leikmanna U21 árs liðsins sem komnir eru út í atvinnumennsku. Felix yfirgaf ÍBV seint í júlímánuði og gekk í raðir danska úrvalsdeildarliðsins Vejle en um lánssamning er að ræða.

„Við eigum fjóra heimaleiki eftir og ég get vel trúað því að við verðum að vinna þrjá af þeim til að eiga möguleika á að ná öðru sætinu. Við förum í þessa leiki með það að markmiði að komast áfram. Fyrsti leikurinn af þessum fjórum er á móti Eistunum. Ég tel okkur vera með sterkara lið en þeir en fótboltinn er eins og hann er. Það er ekkert gefið í þessu. Við verðum að mæta til leiks með rétt hugarfar og gefa allt sem við eigum,“ sagði Felix Örn við mbl.is.

Eftir átta umferðir í dönsku úrvalsdeildinni eru nýliðar Vejle í 12. sæti af 14 liðum í deildinni en Felix þreytti frumraun sína með liðinu í síðustu umferð þegar hann kom inn á sem varamaður í markalausu jafntefli á móti Horsens.

Felix Örn Friðriksson í leik með Eyjamönnum.
Felix Örn Friðriksson í leik með Eyjamönnum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég kann mjög vel við mig í Vejle. Þetta er flott lið á flottum stað. Það var mikið stökk að fara frá ÍBV til Vejle. Hraðinn og tempóið er mun meira en í Pepsi-deildinni. Ég er búinn að vera að spila með varaliðinu en hef alltaf verið í hópi með aðalliðinu og fékk mínar fyrstu mínútur í síðustu umferð. Það er erfitt að koma inn í nýtt lið en ég sé fram á að fá fleiri mínútur,“ sagði hinn 19 ára gamli Felix Örn, sem hefur spilað 10 leiki með U21 árs landsliðinu og þá spilaði hann sína fyrstu leiki með A-landsliðinu gegn Indónesíu í byrjun ársins.

Felix segist fylgjast grannt með sínum gömlu félögum í ÍBV en flest bendir til þess að Eyjamenn haldi sæti sínu í Pepsi-deildinni.

„Ég hef fulla trú á ÍBV-liðinu og ég hef verið mjög ánægður með spilamennsku liðsins eftir að ég fór frá því. Ég fór frá liðinu þegar það var í erfiðri stöðu og fannst það mjög leiðinlegt en ég var ánægður með hvernig þeir tóku í þetta og allir í Vestmannaeyjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert