Komum okkur í mjög góða stöðu með sigri

Sonný Lára Þráinsdóttir, markvörður Breiðabliks.
Sonný Lára Þráinsdóttir, markvörður Breiðabliks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einn af úrslitaleikjunum í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu fer fram á Kópavogsvellinum á morgun þegar nýkrýndir bikarmeistarar Breiðabliks mæta ríkjandi Íslandsmeisturum Þórs/KA.

Þegar þrjár umferðir eru eftir tróna Blikar á toppi deildarinnar. Breiðablik er með 40 stig en Þór/KA kemur næst með 38. Stjarnan kemur svo í þriðja sætinu með 29 stig svo ljóst er að baráttan um Íslandsmeistaratitilinn stendur á milli Breiðabliks og Stjörnunnar.

„Það ríkir mikil spenna í okkar liði fyrir þessum stórleik,“ sagði Sonný Lára Þráinsdóttir, markvörður og fyrirliði Breiðabliks, í samtali við mbl.is.

„Við komum okkur í mjög góða stöðu með sigri á morgun en við gerum okkur grein fyrir því að þetta verður mjög erfiður leikur. Þór/KA er með virkilega öflugt lið og eini tapleikur okkar í sumar kom einmitt í fyrri leiknum á Akureyri fyrr í sumar,“ sagði Sonný Lára, sem aðeins hefur fengið á sig átta mörk í 15 leikjum Breiðabliks í deildinni í sumar.

„Taflan lýgur ekki. Þetta eru bestu lið landsins og ég held að þetta verði jafn og spennandi leikur þar sem ekkert verður gefið eftir. Við þurfum að ná fram góðum leik til að eiga möguleika á sigri og lykilatriði fyrir okkur verður að halda aftur af sóknarmönnum Þórs/KA. Það er mikið sjálfstraust í okkar liði. Við erum nýbúnar að landa bikarmeistaratitlinum og við stefnum leynt og ljóst að því að vinna þann stóra líka,“ sagði Sonný Lára en í síðustu tveimur umferðum mætir Breiðablik liði Selfoss á heimavelli og Val á útivelli.

Leikur Breiðabliks og Þórs/KA hefst klukkan 14 á morgun á Kópavogsvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert