„Erum ekki að fara í tiki-taka“

Ólafsvíkingar náðu ekki að kreista fram sigur gegn ÍA í …
Ólafsvíkingar náðu ekki að kreista fram sigur gegn ÍA í dag. Ljósmynd/Alfons Finnsson

„Þetta var mjög sárt,“ sagði Vignir Snær Stefánsson, leikmaður Víkings Ó., eftir að vonir liðsins um sæti í efstu deild á næsta tímabili eru nánast úr sögunni í kjölfar 1:1-jafnteflis gegn ÍA í 20. umferð Inkasso-deildar karla í knattspyrnu á Akranesi í dag.

„Við spiluðum okkar leik og ætluðum að sjá hverju það myndi skila. Í dag fannst mér það vera nóg en það dugði ekki til. Okkar leikur er að spila langt fram og við lögðum þetta vel upp í dag, við erum ekkert að fara í neitt tiki-taka.“

Skagamenn eru erfiðir heim að sækja og ekki endilega slæm úrslit að sækja stig hingað. Aftur á móti hafa Ólafsvíkingar misstigið sig á undanförnum vikum og m.a. gert jafntefli við bæði Selfoss og Hauka sem hafa verið í botnbaráttunni. Voru þau úrslit ekki einfaldlega of dýrkeypt?

„Það er auðvitað bara hárrétt, það voru svekkjandi jafntefli en við spiluðum bara ekki betur en það,“ sagði Vignir sem skoraði mark Víkinga í dag og fékk svo annað færi undir lok leiks. Boltinn hrökk þá af varnarmanni ÍA og á meðan Ólafsvíkingar heimtuðu vítaspyrnu flautaði Einar Ingi Jóhannsson dómari einfaldlega til leiksloka.

Við hefðum getað unnið í dag, ég fékk færi hérna undir lokin og einhverjir vildu fá víti, töldu þetta vera hendi, en ég sá það ekki. Við ætlum bara að reyna að vinna þessa leiki sem eftir eru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert