Grótta jafnaði Aftureldingu á toppnum

Afturelding er enn í toppsætinu þrátt fyrir óvænt tap.
Afturelding er enn í toppsætinu þrátt fyrir óvænt tap. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Topplið Aftureldingar tapaði óvænt fyrir Þrótti V. á heimavelli í 2. deild karla í fótbolta í dag, 1:2, og baráttan í deildinni er orðin gríðarlega tvísýn, bæði á toppi og botni, þegar tveimur umferðum er ólokið.

Jose Gonzalez kom Aftureldingu yfir strax á 1. mínútu en þeir Sverrir Bartolozzi og Örn Rúnar Magnússon sneru taflinu við fyrir Þrótt áður en flautað var til hálfleiks. Fleiri urðu mörkin ekki á Varmárvelli. 

Grótta nýtti sér tap Aftureldingar og jafnaði toppliðið að stigum með 2:1-sigri á Víði á útivelli. Kristófer Orri Pétursson skoraði tvö mörk fyrir Gróttu á fyrstu 20 mínútunum áður en Dagur Guðjónsson lagaði stöðuna fyrir Víði með sjálfsmarki á 29. mínútu og þar við sat. 

Vestri fór upp í þriðja sætið með 1:0-sigri á Hugin á heimavelli sínum. Pétur Bjarnason skoraði sigurmarkið á 80. mínútu og er Huginn fallinn niður í 3. deild, aðeins tveimur árum eftir að liðið féll úr 1. deild. 

Tindastóll vann gríðarlega mikilvægan 1:0-sigur á Fjarðabyggð á heimavelli. Páll Hróar Helgason fékk tvö gul spjöld og þar með rautt um miðjan seinni hálfleik og Tindastólsmenn nýttu sér liðsmuninn. Arnar Ólafsson skoraði sigurmarkið á 85. mínútu og er Tindastóll nú aðeins í fallsæti á markatölu. 

Höttur og Leiknir F. eru einnig í mikilli fallbaráttu og mættust þau á Egilsstöðum í dag. Svo fór að Höttur vann 2:0. Daníel Steinar Kjartansson kom Hetti yfir á 18. mínútu og Kristófer Einarsson bætti við marki á 36. mínútu og þar við sat. 

Völsungur og Kári mætast í lokaleik umferðarinnar á Húsavík á morgun og sigurliðið þar verður á hælum efstu liðanna.

Staðan í deildinni: 

 1. Afturelding 39
 2. Grótta 39
 3. Vestri 38
 4. Kári 35
 5. Völsungur 34
 6. Þróttur V. 30
 7. Fjarðabyggð 28
 8. Víðir 23
 9. Leiknir F. 19
 10. Höttur 18
 11. Tindastóll 18
 12. Huginn 9
mbl.is