„Þetta gerðist og það er glatað“

Xherdan Shaqiri og Guðlaugur Victor Pálsson í leiknum í dag.
Xherdan Shaqiri og Guðlaugur Victor Pálsson í leiknum í dag. AFP

Guðlaugur Victor Pálsson sagði Svisslendinga hafa fengið að athafna sig á vellinum eins og þeir kysu þegar Sviss burstaði Ísland 6:0 í Þjóðadeild UEFA í St. Gallen. 

„Þetta opnaðist of mikið hjá okkur og ivð gáfum þeim of mikið svæði á milli okkar og fyrir aftan okkur. Við vissum hverjir þeirra styrkleikar eru og þetta er akkúrat eins og þeir vilja spila. Skipulag okkar hrundi og sérstaklega í seinni hálfleik,“ sagði Victor sem fékk tækifæri á miðjunni í dag í fjarveru Arons Einars Gunnarssonar og Emils Hallfreðssonar. Sjálfur spilar hann í Sviss með FC Zürich.  

Victor sagðist ekki hafa skynjað í aðdraganda leiksins að slæm úrslit væru í uppsiglingu. „Við vorum vel stemmdir fyrir leikinn og höfum haft það frábært í undirbúningnum í Austurríki og Sviss. Liðsandinn er frábær. Þetta er einn leikur. Hann fór eins og hann fór og það er ömurlegt. Þetta gerðist og það er glatað en við getum ekki dvalið of lengi við það því aftur er leikur á þriðjudaginn,“ sagði Victor við mbl.is en þá tekur Ísland á móti Belgíu á Laugardalsvelli. „Þegar menn fá svona skell vilja þeir sýna í næsta leik hvað í þeim býr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert