Ekki lent í neinu sambærilegu

Erik Hamrén og Hannes Þór Halldórsson á fundinum í dag.
Erik Hamrén og Hannes Þór Halldórsson á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Auðvitað mæta menn trylltir og staðráðnir í að bæta upp fyrir þetta,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, fyrir leikinn við Belgíu annað kvöld í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli.

Eftir 6:0-tap gegn Sviss segir Hannes kærkomið að geta spilað strax aftur og það á Laugardalsvelli, þar sem Ísland hefur náð frábærum árangri síðustu ár:

„Menn verða að mæta með blöndu af auðmýkt, gegn einu besta liði heims, en sjálfstrausti því við höfum náð frábærum úrslitum og gert ótrúlega hluti á þessum velli. Við verðum að muna það. Auðvitað var þetta skellur um daginn, og smáskarð í sjálfstraustið, en við verðum að sjá til þess að einangra það við þennan leik. Þetta verður mjög erfitt en við höfum áður unnið lið sem hafa mætt hérna eftir bronsverðlaun á HM,“ sagði Hannes á blaðamannafundi í dag, og vísaði til frækins sigurs á Hollendingum um árið.

Hannes Þór Halldórsson fórnar höndum í 6:0-tapinu gegn Sviss á …
Hannes Þór Halldórsson fórnar höndum í 6:0-tapinu gegn Sviss á laugardag. AFP

Hannes var spurður nánar út í skellinn gegn Svisslendingum og sagði leikmenn hafa reynt að greina leikinn, bæði hver í sínu horni og saman:

„Þetta er óvenjulegt. Við höfum ekki lent í neinu sambærilegu með þessu landsliði. Við reyndum að greina þetta, bæði í sitt hvoru lagi og saman, en við reynum líka að dvelja ekki of mikið við þetta og sökkva okkur í eitthvert volæði. Við reyndum að finna svörin og vonandi eru þau komin,“ sagði Hannes.

„Það eru nokkrir samverkandi þættir [sem orsökuðu þetta tap]. Okkur vantar fullt af leikmönnum, það er samt engin afsökun. Sviss nær fram frábærum leik. Það er eitt og annað sem gerir að verkum að þetta spilast svona. Við höfum rætt málin, komist að niðurstöðu og erum farnir að horfa fram á veginn. Vonandi skilar það sér í betri frammistöðu,“ sagði Hannes.

mbl.is