Stefnan að snúa aftur í A-landsliðið

Samúel Kári Friðjónsson
Samúel Kári Friðjónsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samúel Kári Friðjónsson stefnir á sigur þegar landslið Íslands skipað leikmönnum 21 árs og yngri mætir Slóvakíu á KR-vellinum á morgun í undankeppni EM 2019. Íslenska liðið vann sterkan 5:2-sigur á Eistlandi í síðustu viku og þarf áfram að gera vel, ætli liðið sér í umspil um sæti á Evrópumeistaramótinu.

„Þetta var frábær leikur á fimmtudaginn en nú er hann búinn og við horfum til næsta verkefnis. Við unnum þá 2:0 úti og við ætlum að gera það sama hér. Við þurfum að taka sigur í þessum leik og við nálgumst alla leiki til að vinna.“

Samúel fór með A-landsliðinu á heimsmeistaramótið í Rússlandi í sumar en er nú aftur kominn í U21-liðið. Hann segist hafa rætt við Frey Alexandersson, aðstoðarmann Eriks Hamréns sem stýrir A-landsliðinu.

„Ég talaði ekki við Hamrén en Freyr hringdi í mig og lýsti stöðunni fyrir mér. Hann sagði mér að ég yrði með U21-liðinu núna og við vorum sammála um það, það var fínt samtal.

Það er stór gluggi fyrir alla fótboltamenn að vera í landsliði. Að hafa verið með A-landsliðinu á HM, Indónesíu og Bandaríkjunum var auðvitað bara heiður. Það er stefnan að snúa aftur í þann hóp eins fljótt og hægt er en þegar maður er í verkefni með U21-liðinu einbeitir maður sér að því.“

mbl.is