Hægt að vera sigurvegari þrátt fyrir tap

Erik Hamrén var svekktur í leikslok.
Erik Hamrén var svekktur í leikslok. mbl.is/Eggert

„Við sögðum fyrir leikinn að frammistaðan væri mikilvæg eftir leikinn við Sviss. Við spiluðum ekki vel þar. Ég er sáttur við frammistöðuna þrátt fyrir tapið. Það er hægt að vera sigurvegari þrátt fyrir tap ef þú skildir allt eftir á vellinum,“ sagði Erik Hamrén, landsliðsþjálfari karlaliðsins í fótbolta, eftir 3:0-tap fyrir Belgíu í Þjóðadeildinni í dag. 

„Við getum verið sáttir með frammistöðuna á móti einu besta liði í heimi. Þeir spila góðan fótbolta. Það eina sem ég var ekki sáttur við var að skora ekki mark. Við unnum eins og lið í 90 mínútur, ólíkt því sem við gerðum á móti Sviss. Þar vorum við 11 einstaklingar. Við verðum að spila sem lið á móti liði eins og Belgíu.“

Hamrén er ekki sáttur við að íslenska liðið sé að fá á sig mörk úr föstum leikatriðum. 

„Fyrsta markið var víti, ég þarf að sjá það aftur. Það er erfitt að verjast Lukaku ef þú ert vitlausum megin við hann. Annað markið var horn og við erum búnir að fá á okkur of mörg mörk úr föstum leikatriðum í þessum tveimur leikjum.“

Hann segist ekki sjá eftir því að hafa tekið við landsliðinu, þrátt fyrir tvö stór töp í fyrstu tveimur leikjunum. 

„Nei, ég vissi að fyrstu fimm leikirnir væru erfiðir. Frakkar, Belgar tvisvar og Sviss tvisvar. Við verðum að reyna að spila vel og ná í úrslit og vera eitt af tíu bestu liðunum fyrir dráttinn í undankeppni EM.“

Kolbeinn Sigþórsson kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik og er Hamrén ánægður með innkomu hans í landsliðshópinn. 

„Ég er búinn að vera sáttur við það sem ég hef séð. Hann er að verða betri og betri. Hann er búinn að eiga erfitt, þar sem hann hefur ekki æft í Frakklandi. Hann er verkjalaus og ég er búinn að brosa mikið á æfingum og þegar hann kom inn á,“ sagði Hamrén. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert