Segir Ísland ekki eiga möguleika

Eden Hazard er í sérstöku uppáhaldi hjá Ásgeiri af leikmönnum …
Eden Hazard er í sérstöku uppáhaldi hjá Ásgeiri af leikmönnum belgíska liðsins. Hann gæti orðið Íslendingum afar erfiður í kvöld. AFP

Ásgeir Sigurvinsson telur að Ísland eigi ekki möguleika á að vinna Belgíu, bronslið HM, á Laugardalsvelli í kvöld í Þjóðadeildinni í knattspyrnu.

Ásgeir, hugsanlega besti knattspyrnumaður sem Ísland hefur átt, lék meðal annars við afar góðan orðstír í Belgíu á sínum ferli með Standard Liege. Belgíski miðillinn Derniere Heure spurði hann út í væntingar sínar varðandi leikinn í kvöld:

„Ég skal vera hreinskilinn. Ég held að við eigum ekki möguleika á að vinna. Ég vona hið gagnstæða, en það yrði bara stórkostlegt að ná í jafntefli,“ sagði Ásgeir.

„Ég er ákaflega hrifinn af Eden Hazard í belgíska liðinu, sem og Kevin De Bruyne sem er sem betur fer meiddur. Hazard er fljótur, með mikla tækni og getur gert útslagið með eitruðum fæti sínum. Við höfum engan svona leikmann,“ sagði Ásgeir, og bætti við: „Gylfi Sigurðsson er okkar besti sóknarmaður, leikmaður sem vinnur mjög mikið fyrir liðið en hefur ekki hraðann sem Hazard hefur. Stjarnan í okkar liði er liðsheildin og hugarfarið sem getur fleytt okkur svo langt. Ég held að 6:0-tapið í Sviss muni þrýsta á þjálfarann til að spila svakalega varnarsinnaðan leik.“

Leikur Íslands og Belgíu hefst kl. 18.45 í kvöld.

Ásgeir Sigurvinsson á ferðinni í sumar í stjörnuleik á afmælishátíð …
Ásgeir Sigurvinsson á ferðinni í sumar í stjörnuleik á afmælishátíð Stuttgart í Þýskalandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert