Sjáum þennan gæja ekki skora aftur

Aron Snær Friðriksson komst vel frá leikjum sínum með íslenska …
Aron Snær Friðriksson komst vel frá leikjum sínum með íslenska U21-landsliðinu gegn Eistlandi og Slóvakíu. mbl.is/Kristinn Magnúss.

„Þetta er agalega svekkjandi,“ sagði Aron Snær Friðriksson sem átti mjög góðan leik í marki Íslands þrátt fyrir 3:2-tapið gegn Slóvakíu í dag í undankeppni EM U21-landsliða í knattspyrnu.

„Mér fannst við ná ágætis frammistöðu þannig séð. Við þurftum að vinna, hentum öllum fram og fengum færi til að klára þetta en nýttum þau ekki og fengum það í andlitið. Ég held að þetta sé versta mögulega leið til að fá það í andlitið. En þegar bæði lið vilja vinna og henda öllum fram þá er þetta svona leikur,“ sagði Aron, en kollegi hans í marki Slóvakíu skoraði sigurmark gestanna í Vesturbænum í dag, í uppbótartíma. Brá Aroni við að sjá markvörðinn koma fram?

„Ég veit ekki hvort það hljómar vitlaust en ég sá bara möguleikann fyrir okkur á að henda einum fram, taka sénsinn og reyna að vinna þennan leik. Ég sá markvörðinn ekki fyrir mér fara að skora, taka skalla á vítapunkti einn og hitta boltann svona. Við erum ekkert að fara að sjá þennan gæja skora aftur á ferlinum, því miður fyrir hann,“ sagði Aron, sem eins og áður segir átti mjög flottan leik, sérstaklega í fyrri hálfleik þegar hann varði víti og dauðafæri, en vildi ekki gera mikið úr sinni frammistöðu.

„Svona leikir enda oft með því að markmenn fá eitthvert „credit“ en það fóru þrjú mörk inn og ég er svolítið pirraður yfir þeim,“ sagði Aron Snær sem þó ætti að fara fullur sjálfstrausts í næstu leiki með Fylki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert