Þeir eiga leikmenn í kippum

Hannes Þór Halldórsson ræðir hér við Frey Alexandersson, aðstoðarþjálfara íslenska ...
Hannes Þór Halldórsson ræðir hér við Frey Alexandersson, aðstoðarþjálfara íslenska liðsins. Eggert Jóhannesson

„Við spiluðum að mörgu leyti ágætis leik. Það er kannski skrýtið að segja það eftir 3:0-tap. Við eigum ekki að sætta okkur við neitt annað en að ná í úrslit á heimavelli. Við erum það góðir hérna. Það verður náttúrlega líka að viðurkennast að við erum að spila á móti einu albesta liði í heiminum og þeir eru mjög erfiðir að eiga við. Þeir refsa grimmt,“ sagði Hannes Þór Halldórsson landsliðsmarkvörður við mbl.is eftir 3:0 tap gegn Belgíu í Þjóðadeildinni.

Hannes segir þó að liðið hafi sýnt að það vildi gera betur en í síðasta leik þar sem Sviss tók Íslendinga í bakaríið, 6:0.

„Mér fannst við allavega sína það fyrsta hálftímanna að vorum virkilega staðráðnir í að bæta upp fyrir síðasta leik. Við vorum með hjartað í þessu og skipulag. Það var ekkert ósvipuð þróun á leiknum og þegar við höfum verið að ná í úrslit á móti stórþjóðum hérna. En svo setja þeir náttúrlega tvö á okkur og þar skilur á milli,“ sagði Hannes Þór Halldórsson.

Spurður hvort þetta hafi verið besta lið sem Hannes hefur mætt sagði hann það ekki vera.

„Ætli Sviss sé ekki besta lið sem ég hef mætt,“ sagði Hannes Þór og hló.

„Þeir voru svakalegir. En ég veit það ekki. Ef þú horfir á leikmennina í liðinu þeirra [Belga] er þetta örugglega nálægt því. Þetta er svakalegt lið og úrslit þeirra upp á síðkastið hafa sýnt það. Þeir eiga leikmenn í kippum. Sem betur fer mega þeir bara setja 11 inn á,“ sagði Hannes Þór.

Spurður að því hversu mikið áfall það hafi verið að tapa fyrir Sviss svona stórt sagði Hannes Þór:

„Þetta var mikið sjokk og niðurlægjandi. Maður skammaðist sín. Menn vildu bæta upp fyrir það. Því miður mætum við frábæru liði og töpum 3:0 þótt við höfum virkilega verið beittir framan af. En það gekk bara ekki. Við vorum allavega staðráðnir í að stíga upp og sýna að það væri karakter í þessum hóp og að þetta andleysi sem ríkti síðasta hálftímann [gegn Sviss] sé ekki komið til að vera. Mér fannast við allavega sýna það í dag að við erum ekki orðnir lélegir á einum degi,“ sagði Hannes Þór Halldórsson.

mbl.is