Vorum miklu þéttari núna

Emil Hallfreðsson í baráttu við Eden Hazard í kvöld.
Emil Hallfreðsson í baráttu við Eden Hazard í kvöld. mbl.is/Eggert

„Þessi leikur var ágætur þannig séð. 3:0 var aðeins of stórt tap. Við fengum mark á okkur úr víti, föstu leikatriði, og svo fengum við á okkur klaufalegt mark í lokin. 2:0 hefði verið aðeins betra,“ sagði Emil Hallfreðsson, miðjumaður íslenska landsliðsins í fótbolta, eftir 3:0-tap fyrir Belgum í Þjóðadeildinni í fótbolta í kvöld. 

Hann segir leikinn betri en gegn Sviss um helgina, enda tapaðist sá leikur 6:0. 

„Við vorum miklu þéttari núna. Tilfinningin á móti Sviss var eins og við værum allt of opnir. Við ákváðum að fara aftur í grunnatriðin og gera þau vel eins og við höfum gert síðustu ár. Það var erfitt fyrir alla að horfa á þann leik. Ég var óheppinn að lenda í smámeiðslum. Það var leiðinlegt að horfa á og enn leiðinlegra fyrir þá sem spiluðu leikinn. Það var ákveðið sjokk en eitthvað sem við lærum af.“

Hvað fannst Emil virka vel, á þeim köflum sem íslenska liðið leit betur út? 

„Við byrjuðum af krafti og það kom fínn spilkafli í seinni hálfleik í um hálftíma. Þá þorðum við að taka boltann niður og spila honum. Það voru slæmir punktar og jákvæðir líka. Það eru nýir menn í þessu sem við þekkjum ekki vel að spila með og þeir stóðu sig mjög vel í dag. Síðustu tíu dagar eru búnir að vera góður lærdómur og við tökum það jákvæða með í næstu verkefni.“

Emil hrósaði belgíska landsliðinu í leikslok. 

„Andstæðingurinn var klárlega sterkur, þetta er ein besta knattspyrnuþjóð heims í dag. Að fá á sig tvö mörk í föstum leikatriðum var slæmt. Við fengum mark á okkur úr víti og það getur gerst,“ sagði Emil Hallfreðsson. 

mbl.is