Betri leikur dugði ekki gegn Belgum

Hörður Björgvin Magnússon gengur hnípinn af velli og þeir Freyr …
Hörður Björgvin Magnússon gengur hnípinn af velli og þeir Freyr Alexandersson og Hannes Þór Halldórsson fara yfir málin. mbl.is/Eggert

Óhætt er að segja að íslenska karlalandsliðið í fótbolta hafi í annað sinn á fjórum dögum mætt ofjörlum sínum þegar það tapaði, 0:3, fyrir bronsliði heimsmeistaramótsins í sumar, Belgum, á Laugardalsvellinum í gærkvöld í Þjóðadeild UEFA.

Frammistaðan í gær var mun betri en gegn Sviss í St. Gallen. Liðið var mun þéttara í 4-5-1 leikaðferðinni og ljóst var frá fyrstu mínútu að hugarfarið var á þá leið að sýna sig og sanna á ný. Heilsteyptari varnarleikur liðsins í heild dugði þó ekki lengra en þetta gegn Eden Hazard, Romelu Lukaku og félögum sem skoruðu tvisvar með stuttu millibili eftir hálftíma og aftur tíu mínútum fyrir leikslok. Lukaku skoraði tvö síðari mörkin og krækti í vítaspyrnu sem Hazard skoraði úr fyrsta mark Belga.

Fyrstu fimmtán mínúturnar voru góðar af hálfu Íslands en það var eini virkilegi sóknarkafli liðsins í leiknum. Eftir það tóku Belgar smám saman völdin. Gylfi Þór Sigurðsson komst næst því að skora, í tvígang, fyrst snemma leiks eftir góða skyndisókn og sprett Jóns Daða Böðvarssonar, og svo í seinni hálfleik þegar Thibaut Courtois varði þrumufleyg hans með tilþrifum.

Ítarlega er fjallað um leik Íslands og Belgíu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert