Hetjuleg framganga Þórs/KA

Sara Björk Gunnarsdóttir og Lillý Rut Hlynsdóttir í baráttu á ...
Sara Björk Gunnarsdóttir og Lillý Rut Hlynsdóttir í baráttu á Þórsvellinum í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Einn allra stærsti félagsleikur sem fram hefur farið á Íslandi var leikinn á Akureyri í dag. Tvöfaldir Evrópumeistarar Wolfsburg mættu Íslandsmeisturum Þórs/KA í 32-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og lauk leiknum með aðeins eins marks sigri þýska liðsins, 1:0.

Í liði Wolfsburgar er landsliðsfyrirliðinn, Sara Björk Gunnarsdóttir, og hún spilaði allan leikinn í dag en þeirra skærasta stjarna er Pernille Harder sem nýverið var kjörin knattspyrnukona Evrópu.

Það var ljóst að við ramman reip yrði að draga fyrir Þór/KA svo liðið pakkaði í vörn strax í byrjun. Wolfsburg var með boltann megnið af fyrri hálfleiknum en fann fáar glufur á varnarmúr andstæðingsins. Hætta skapaðist þó ávallt við mark Þórs/KA eftir eitraðar hornspyrnur gestanna. Í tvígang þurfti Stephanie Bukavac að sýna snilldartakta í markinu áður en Pernille Harder skoraði eina mark fyrri hálfleiks eftir hálftíma leik.

Þór/KA var hársbreidd frá því að jafna í næstu sókn og svo í blálok hálfleiksins. Staðan var 0:1 í hálfleik og þannig lauk leiknum.

Wolfsburg lá í sókn allan seinni hálfleikinn en tókst ekki að bæta við marki. Stephany Mayor átti frábært skot undir lokin sem fór í þverslána og hefði verið magnað að sjá þann bolta inni.

Allir liðsmenn Þórs/KA börðust eins og ljón í leiknum og vörðust vel. Norðankonum gekk hins vegar afleitlega að halda boltanum þegar hann vannst og var það helsti ljóður á leik liðsins. Það verða að teljast frábær úrslit að tapa aðeins með einu marki gegn þessu firnasterka liði Þýskalandsmeistara Wolfsburg.

Liðin mætast aftur í Wolfsburg eftir tvær vikur.

Þór/KA 0:1 Wolfsburg opna loka
90. mín. Leik lokið Mögnuð frammistaða hjá Þór/KA en þær börðust eins og ljón en voru nokkuð heppnar að fá bara á sig eitt mark.
mbl.is