„Stoltur af þessum degi“

Leikmenn Þórs/KA sækja hart að markverði Wolfsburg, Almuth Schult, í ...
Leikmenn Þórs/KA sækja hart að markverði Wolfsburg, Almuth Schult, í leiknum á Þórsvelli í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég er bara mjög sáttur,“ var það fyrsta sem Donni, þjálfari Þórs/KA, hafði að segja eftir að lið hans hafði tapað 0:1 fyrir Wolfsburg í Meistaradeild kvenna í dag. „Ég er sáttur við heildarframmistöðu liðsins. Varnarleikurinn var hrikalega flottur allan leikinn hjá öllu liðinu. Þetta gefur okkur smá séns fyrir seinni leikinn. Það eitt og sér er bara stórbrotið. Það er í raun það sem við ætluðum að gera, að eiga pínu séns fyrir leikinn í Þýskalandi, og það tókst.“

Ég sá að þú varst argur á hliðarlínunni yfir því hve illa gekk hjá ykkur að halda boltanum þegar hann vannst.

„Já, það gekk ekki nógu vel. Það var ákveðin spenna í liðinu og þetta getur gerst þegar lið liggur í vörn. Við erum náttúrlega með ungt lið og við vorum að spila við eitt besta lið í heiminum. Það var klárlega pínu stress á boltanum og við töluðum um það í hálfleiknum að við ætluðum að reyna að halda betur og það tókst svona af og til. Það komu glefsur inn á milli. Aðalatriðið var að við ætluðum að verjast og treysta á skyndiupphlaup og föst leikatriði. Við hefðum átt að skora eftir fast leikatriði í fyrri hálfleik og áttum sláarskot eftir skyndisókn í seinni hálfleik.

Ég er bara mjög sáttur. Í allt hefðum við geta skorað þrjú mörk í þessum leik og það hefði verið stórkostlegt að fá eitt. Ég er ánægður með liðið og mjög stoltur af þessum degi. Ég er rosalega ánægður og þakklátur fyrir allt fólkið sem mætti á leikinn og studdi okkur. Þessi stuðningur skiptir gríðarlega miklu máli. Stelpurnar og við fundum svakalega vel fyrir góðum stuðningi og það mun bara hjálpa okkur í framhaldinu,“ sagði Donni, greinilega fullur af þakklæti og gríðarlega stoltur.

mbl.is