Andri Rafn ekki í úrslitaleiknum?

Rúnar Páll Sigmundsson, Baldur Sigurðsson, Gunnleifur Gunnleifsson og Ágúst Gylfason …
Rúnar Páll Sigmundsson, Baldur Sigurðsson, Gunnleifur Gunnleifsson og Ágúst Gylfason á kynningarfundinum fyrir bikarúrslitaleikinn í dag. mbl.is/Hari

Á laugardagskvöld mætast grannliðin Stjarnan og Breiðablik í úrslitaleik Mjólkurbikars karla í knattspyrnu á Laugardalsvelli.

Breiðablik hefur unnið bikarinn einu sinni en Stjarnan aldrei. Í liði Stjörnunnar eru þó menn á borð við fyrirliðann Baldur Sigurðsson sem unnið hefur bikarinn fjórum sinnum.

Svo gæti farið að Breiðablik yrði án eins af sínum lykilmönnum, Andra Rafns Yeoman, en svör þjálfara og fyrirliða liðsins voru nokkuð misvísandi hvað það varðaði:

„Við erum með þrjá leikmenn sem hafa verið í basli undanfarið. Andri Yeoman, Alexander Helgi og Oliver. Það er spurningarmerki með hvernig staðan verður á þeim. Þeir eru í kappi við tímann. En við erum með góðan hóp og óhræddir við að setja nýja menn inn. Undirbúningurinn gengur vel og við verðum klárir á laugardaginn í þennan stórleik,“ sagði Ágúst Gylfason þjálfari Breiðabliks.

Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður og fyrirliði Blika, reyndist talsvert svartsýnni á að Andri yrði klár í leikinn:

„Það er vont að missa Andra Yeoman. Hann er búinn að vera lykilmaður og einn besti leikmaður Breiðabliks í mörg ár. Það er vont. Að sama skapi eru ungir strákar í hópnum sem ég treysti fyllilega til að fylla í skarðið fyrir hann,“ sagði Gunnleifur.

Bikarúrslitaleikurinn er kl. 19.15 á laugardagskvöld og er miðasala í gangi á tix.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert