Fær Ágúst fjórða mjólkurbaðið?

Rúnar Páll Sigmundsson, Baldur Sigurðsson, Gunnleifur Gunnleifsson og Ágúst Gylfason …
Rúnar Páll Sigmundsson, Baldur Sigurðsson, Gunnleifur Gunnleifsson og Ágúst Gylfason á kynningarfundinum fyrir bikarúrslitaleikinn í gær. mbl.is/Hari

Þó að ekki hafi margir leikmenn Breiðabliks upplifað það að landa bikarmeistaratitlinum í knattspyrnu karla þá hefur þjálfari liðsins, Ágúst Gylfason, góða reynslu af því. Breiðablik mætir Stjörnunni í úrslitaleik Mjólkurbikarsins kl. 19.15 á morgun.

Á ferli sínum sem leikmaður vann Ágúst bikarmeistaratitilinn þrjú ár í röð með Val, árin 1990-1992. Á þessum tíma hét keppnin, líkt og nú, Mjólkurbikarinn og var hefð fyrir því að bikarmeistararnir fengju mjólkurbað eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Hún er frá fagnaðarlátum eftir bikarúrslitaleikinn árið 1991 þar sem Ágúst reyndist hetja Vals með því að skora eina markið í sigri á FH, með glæsilegu skoti utan teigs. Hvort reynslan af þessu muni hjálpa Ágústi eða Breiðabliki á morgun er þó erfitt að segja til um.

Ágúst fær hér mjólkurbað í boði Gunnars Más Mássonar, þáverandi …
Ágúst fær hér mjólkurbað í boði Gunnars Más Mássonar, þáverandi liðsfélaga síns hjá Val. Ljósmynd/DV/timarit.is

„Mjólkurbikarinn er skemmtilegur bikar sem gaman er að vinna og vonandi gerum við það. Stjarnan er klárlega sigurstranglegra lið miðað við undanfarna leiki okkar á móti þeim, þar sem við höfum tapað fjórum í röð á síðustu tveimur árum. Við þurfum að undirbúa okkur gríðarlega vel en á móti kemur að pressan er á þeim frekar en okkur. Þeir hafa aldrei unnið bikarinn en Blikar hafa gert það áður sem og ég sjálfur. En þetta snýst um dagsformið og hversu vel undirbúnir menn mæta í leikinn,“ sagði Ágúst við mbl.is á kynningarfundi vegna leiksins í gær.

Þurfum mögulega að breyta til

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Íslandsmeistara Vals, sagði eftir leik við Breiðablik í sumar að liðið færi aldrei fram fyrir miðju í fyrri hálfleik, en hvernig sér Ágúst fyrir sér að úrslitaleikurinn spilist?

„Já, Óli Jó sagði það nú og það er spurning hvort það verði ekki þannig í þessum leik. Þetta verður eflaust taktískur leikur. Þeir tala um að þeir séu mjög gott sóknarlið og við mjög gott varnarlið. En þeir hafa unnið okkur tvisvar í sumar og við þurfum mögulega að breyta til og reyna að koma framar á völlinn. Það er erfitt að rýna í þennan leik og hvernig hann muni þróast frá fyrstu andartökunum,“ sagði Ágúst.

„Það er mjög gott sjálfstraust í liðinu og við erum staðráðnir í að gera vel á laugardaginn. Við þurfum okkar besta leik til að vinna Stjörnuna, við erum að gíra okkur vel upp og menn verða tilbúnir,“ sagði Ágúst, en bætti þó við að óvissa ríkti um þátttöku Andra Rafns Yeoman, Alexanders Helga Sigurðarsonar og Olivers Sigurjónssonar vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert