Heimir áfram með HB

Heimir Guðjónsson
Heimir Guðjónsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimir Guðjónsson hefur framlengt samning sinn við færeyska knattspyrnuliðið HB í Þórshöfn en greint er frá þessu á heimasíðu félagsins í dag.

Samningur Heimis gildir út næstu leiktíð en þessi sigursæli þjálfari tók við liði HB fyrir þetta tímabil. Flest bendir til þess að lærisveinar Heimis hampi meistaratitlinum en þegar fimm umferðum er ólokið er liðið með 10 stiga forskot á KÍ. Þá komst HB í úrslitaleik bikarkeppninnar en tapaði fyrir B36 þar sem úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni.

HB hefur 22 sinnum orðið færeyskur meistari, síðast fyrir fimm árum en með liðinu leika tveir Íslendingar, Brynjar Hlöðversson og Grétar Snær Gunnarsson sem er í láni frá FH-ingum.

Heimir yfirgaf FH eftir síðustu leiktíð en hann var í 17 ár hjá félaginu, fyrst sem leikmaður, síðan aðstoðarþjálfari og loks þjálfari frá árinu 2008. FH varð fimm sinnum Íslandsmeistari undir hans stjórn, einu sinni bikarmeistari og komst tví­veg­is í um­spil um sæti í Evr­ópu­deild­inni.

Samkvæmt heimildum mbl.is settu KA-menn sig í samband við Heimi fyrir nokkru með það í huga að fá hann til starfa en Heimir ákvað að halda kyrru fyrir í Þórshöfn þar sem hann unir hag sínum vel. KA-menn eru í þjálfaraleit en eins og fram kom í gærkvöld mun Sr­djan Tufegdzic láta af störfum hjá Akureyrarliðinu eftir tímabilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert