Stjarnan bikarmeistari í fyrsta skipti

Stjarnan er bikarmeistari karla í fótbolta í fyrsta skipti eftir sigur á Breiðabliki í vítaspyrnukeppni í 59. bikarúrslitaleik KSÍ á Laugardalsvelli í kvöld. Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var markalaus. Stjarnan skoraði hins vegar úr öllum fjórum spyrnum sínum en Breiðablik aðeins úr einni og tryggði Eyjólfur Héðinsson bikartitilinn með síðasta vítinu. 

Breiðablik fékk fyrsta færið á sjöundu mínútu er Gísli Eyjólfsson fékk frítt skot af rúmlega 20 metra færi, en hann skaut nokkuð framhjá markinu. Eftir það einkenndist fyrri hálfleikurinn meira af baráttu og hörku en góðum færum. Skot Gísla var það eina hjá Breiðablik að marki í öllum hálfleiknum.

Stjarnan átti einnig eitt skot í hálfleiknum, en það átti Baldur Sigurðsson. Hann fékk þá glæsilega sendingu inn fyrir vörn Breiðabliks frá Þórarni Inga Valdimarssyni en Gunnleifur Gunnleifsson varði skot hans af stuttu færi með glæsibrag og var því markalaust í hálfleik.

Oliver Sigurjónsson átti fyrstu tilraun seinni hálfleiks en skot hans úr aukaspyrnu af um 25 metra færi fór framhjá. Örfáum mínútum síðar komst Gísli Eyjólfsson í fínt færi eftir mistök Haraldar Björnssonar í marki Stjörnunnar en Jóhann Laxdal bjargaði á síðustu stundu. Thomas Mikkelsen skallaði svo boltann framhjá af stuttu færi á 55. mínútu.

Breiðablik hélt áfram að vera sterkari aðilinn í síðari hálfleik og Mikkelsen fékk annað færi á 66. mínútu. Haraldur varði skot hans innan teigs vel eftir fyrirgjöf Jonathan Hendrickx. Mikkelsen fékk svo besta færið sitt á 73. mínútu er hann slapp einn á móti Haraldi, en markmaðurinn varði glæsilega frá honum.

Guðjón Baldvinsson fékk mjög gott færi á 76. mínútu er hann hristi Viktor Örn Margeirsson af sér og var einn gegn Gunnleifi áður en hann hitti boltann illa og setti hann framhjá. Eyjólfur Héðinsson átti skot framhjá úr fínu færi utan teigs mínútu síðar. Fimm mínútum fyrir leikslok fékk Baldur frítt skot, nánast inn í markteig eftir undirbúning Guðjóns, en Gunnleifur varði ótrúlega vel, ekki í fyrsta skipti í leiknum.

Breiðablik var hársbreidd frá því að tryggja sér sigurinn á blálok venjulegs leiktíma en Haraldur rétt náði að slá boltann yfir slánna eftir að Brynjar Gauti setti boltann í átt að eigin marki. Varamaðurinn Guðmundur Steinn Hafsteinsson kom boltanum í netið á síðustu sekúndum uppbótartíma. Hann var hins vegar í rangstöðu og taldi markið ekki og því var framlengt.

Hilmar Árni Halldórsson átti fyrstu tilraun framlengingarinnar. Gunnleifur þá aukaspyrnu hans vinstra megin við teiginn vel á 96. mínútu. Oliver átti svo tilraun úr aukaspyrnu á svipuðum stað en Haraldur sá við skoti hans í markmannshornið og varði af öryggi. Staðan var því enn markalaus fyrir síðari hluta framlengingarinnar.

Síðari hluti framlengingarinnar var að mestu rólegur framan af, en Guðmundur Steinn Hafsteinsson fékk þó fínt færi á 108. mínútu en hann náði ekki að láta skotið ríða af eftir að hafa leikið á tvo varnarmenn. Varamaðurinn Arnór Gauti Ragnarsson komst svo einn í gegn eftir hælsendingu Willums, skotið var hins vegar of nálægt Haraldi sem gerði engu að síður mjög vel í að verja frá honum, fjórum mínútum fyrir leikslok. 

Það var enn tími fyrir Stjörnuna að fá þrjú færi á síðustu mínútu framlengingarinnar. Fyrst átti Baldur Sigurðsson skot hátt yfir í glæsilegu færi eftir undirbúning Guðjóns, svo skallaði Ævar Ingi Jóhannesson að marki en enn varði Gunnleifur vel áður en varamaðurinn ungi Sölvi Snær Guðbjargarson átti skot í stöngina úr frákastinu af stuttu færi. Inn vildi boltinn hins vegar ekki og réðust úrslitin í vítakeppni, þar sem Stjörnumenn voru sterkari. 

Stjarnan 4:1 Breiðablik opna loka
121. mín. Breiðablik tekur fyrsta vítið og það er Mikkelsen.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert