„Erum einu númeri of litlir“

Hólmar (númer 8) fylgist með þegar Pálmi Rafn Pálmason jafnar ...
Hólmar (númer 8) fylgist með þegar Pálmi Rafn Pálmason jafnar metin í 1:1 á KR-vellinum. mbl.is/Valli

Hólmar Örn Rúnarsson, fyrirliði Keflvíkinga, var svekktur eftir enn einn tapleikinn í sumar. KR sigraði Keflavík 3:1 en Keflavík er fallið með fjögur stig og hefur tapað 16 leikjum af 20.

Hólmari þótti Keflvíkingar leika ágætlega langt fram eftir leik en þegar Atli Sigurjónsson kom KR í 2:1 hafi þeir nánast gefist upp.

„Þegar þeir komust í 2:1 þá var þetta orðið helvíti erfitt. Þá fara gamlir draugar að gera vart við sig og þetta verður andlega erfiðara,“ sagði Hólmar en Keflvíkingar náðu forystunni í leiknum þegar Frans Elvarsson skoraði á 34. mínútu.

„Við héldum forystunni mjög stutt og það hefði verið fínt að fara með forystuna í hálfleik,“ sagði Hólmar en Pálmi Rafn Pálmason jafnaði mínútu eftir að Frans kom Keflavík yfir.

„Við náum að setja þá stundum undir pressu og þeir litu á köflum svolítið illa út. Við náðum að refsa þeim einu sinni. Það var fínn andi og barátta hjá okkur en við erum einu númeri of litlir, enn og aftur.“

Keflvíkingar eiga eftir að taka á móti Víkingi áður en þeir sækja Íslandsmeistara Vals heim í lokaumferð Pepsi-deildarinnar. Fyrirliðinn segir að síðustu leikirnir fari í að undirbúa næsta tímabil:

„Það eru ungir peyjar að spila og við viljum bæta okkur sem lið og undirbúa okkur undir næsta tímabil.“

mbl.is