Erum lítið að pæla í Stjörnunni

Haukur Páll Sigurðsson skoraði glæsilegt mark gegn ÍBV í dag.
Haukur Páll Sigurðsson skoraði glæsilegt mark gegn ÍBV í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Valsmanna, var að vonum afar ánægður með frammistöðu liðsins í dag eftir að það vann stórsigur, 5:1, á ÍBV í Pepsi-deild karla í fótbolta, eftir að hafa verið marki undir í hálfleik.

„Eyjamenn spiluðu fínan fyrri hálfleik en í sjálfu sér fannst mér við vera allt í lagi í fyrri hálfleiknum líka. Við sköpuðum okkur færi sem við áttum að skora úr, hefðum mátt vera aðeins nær þeim í pressunni okkar í fyrri hálfleiknum en við töluðum um það í klefanum í hálfleik að fara ekki á taugum yfir einu eða neinu. Vera bara þolinmóðir, byrja á að skora mark, hækka aðeins tempóið á okkar spili, og seinni hálfleikurinn var frábær af okkar hálfu,“ sagði Haukur en Valur gerði út um leikinn með fjórum mörkum á aðeins níu mínútum.

„Þetta var frábær kafli þegar við skoruðum þessi mörk og svo kláruðum við leikinn eftir það á mjög  fagmannlegan hátt. Við héldum boltanum vel og áttum í heild góðan leik. Eyjamenn voru bara mjög góðir í fyrri hálfleik. Við höfum spilað marga leiki við þá í ár, í bikarnum, deildabikarnum, Meistarakeppninni og deildinni og liðin þekkja hvort annað út og inn. Þeir komu framarlega á okkur, við lentum í smá erfiðleikum með það, en sköpuðum okkur samt nóg af færum í fyrri hálfleik. En heilt yfir var þetta mjög flottur leikur.“

Svo er ekki verra að vera með markamaskínu eins og Patrick Pedersen í fremstu víglínu?

„Já, hann er ótrúlega magnaður hann Patrick. Ef hann fær opin færi þá skorar hann og sýndi hve flotta boltatækni hann hefur og hve góður hann er í því að nýta færin. Heilt yfir var Valsliðið gott í dag.“

Þið setjið enn meiri pressu á Stjörnuna með þessum sigri, ekki satt? Það hlýtur að vera sálfræðilega sterkt að vera fjórum stigum á undan þeim.

„Jú, klárlega, en við hugsum bara um okkur og erum lítið að pæla í Stjörnunni eða öðrum liðum. Þetta er í okkar höndum, ef við klárum okkar munum við lyfta bikarnum. Við þurfum að hugsa um okkur, ekki velta okkur upp úr því hvernig aðrir leikir fara og hvað gerist ef þessi leikur fer svona. Næsti leikur gegn FH er verðugt verkefni og við hugsum bara um hann,“ sagði Haukur Páll Sigurðsson sem skoraði glæsimark í leiknum en verður væntanlega í banni gegn FH eftir að hafa fengið gult spjald í leiknum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert