KR-ingar voru sterkari í seinni hálfleik

Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, stekkur hæst í skallaeinvígi gegn ...
Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, stekkur hæst í skallaeinvígi gegn Keflavík í dag. mbl.is/Valli

KR sigraði Keflavík, 3:1, í 20. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag. KR er í fjórða sæti deildarinnar með 33 stig en Keflavík er í neðsta sæti með 4 stig.

Eftir fremur rólegan fyrsta hálftíma voru það gestirnir úr Keflavík sem skoruðu fyrsta mark leiksins. Frans Elvarsson hirti boltann af Aroni Bjarka Jósepssyni og skoraði af öryggi framhjá Sindra Snæ Jenssyni í marki KR.

Keflvíkingar voru nánast enn að fagna markinu þegar KR-ingar jöfnuðu. Í næstu sókn KR eftir mark Keflvíkinga barst boltinn á Pálma Rafn Pálmason í miðjum teignum. Pálmi dró upp smjörhnífinn og klíndi boltanum upp í markhornið fjær.

Atli Sigurjónsson var nálægt því að koma KR-ingum yfir en hann datt þegar hann var einn gegn markverði. Staðan jöfn 1:1 að loknum frekar líflegum fyrri hálfleik.

KR-ingar voru með öll völd á vellinum í seinni hálfleik og það var því fyllilega verðskuldað þegar þeir komust yfir.

Boltinn barst á Atla við vítateigslínuna þegar korter var eftir en Akureyringurinn setti boltann snyrtilega niðri í hornið hægra megin við Sindra í marki Keflavíkur.

Pálmi skoraði annað mark sitt og innsiglaði sigur KR þegar sex mínútur voru eftir af leiknum. Boltinn datt þá fyrir Pálma eftir sendingu Óskars Arnar frá vinstri kanti og skoraði Pálmi af stuttu færi. KR því áfram í fjórða sæti deildarinnar en Keflvíkingar á sínum stað í því neðsta.

KR 3:1 Keflavík opna loka
90. mín. Leik lokið Öruggur sigur KR-inga í höfn.
mbl.is