Þetta var ekki boðlegt

Sindri Snær Magnússon er fyrirliði Eyjamanna.
Sindri Snær Magnússon er fyrirliði Eyjamanna. mbl.is/Valli

Sindri Snær Magnússon fyrirliði ÍBV segir að frammistaða liðsins í seinni hálfleik gegn Val á Hlíðarenda í dag sé ekki ásættanleg en Eyjamenn töpuðu 5:1 eftir að hafa verið 1:0 yfir í hálfleik í viðureign liðanna í Pepsi-deild karla í fótbolta.

„Við ákváðum að spila góðan fótbolta og koma þeim á óvart, láta þá gera mistökin, og við fengum klárlega mörg tækifæri til þess í fyrri hálfleik. Mér fannst við komast yfir á sannfærandi hátt með glæsilegu marki eftir flott uppspil. Valsmenn náðu yfirtökum síðasta korterið í fyrri hálfleik og eftir að fyrsta mark þeirra kom gerðist eitthvað sem við þurfum að skoða. Hvernig við brugðumst við jöfnunarmarki Vals er óásættanlegt," sagði Sindri Snær við mbl.is eftir leikinn.

„Þarna fengum við á okkur þrjú mörk á fimm mínútum og  fjögur á níu mínútna kafla, og það er eitthvað sem við þurfum að skoða og bregðast við. Á morgun förum við yfir hlutina og verðum að bæta þetta því svona frammistaða er ekki boðleg."

Hann var sammála því að leikur ÍBV hefði verið gríðarlega kaflaskiptur.

„Fyrri og seinni hálfleikur voru því eins og svart og hvítt og það er að sjálfsögðu eitthvað sem við viljum ekki. Eins og við gátum mætt vel til leiks náðum við ekki að ljúka leiknum á sama hátt."

ÍBV er áfram í fallhættu eftir ósigurinn en Sindri vildi ekki dvelja mikið við það.

„Við þurfum alltaf að ná í fleiri  stig og það var alltaf markmiðið. Stefnan er alltaf að vinna alla leiki - í þetta sinn töpuðum við stórt, en  við höldum áfram að horfa upp fyrir okkur því við ætlum að ná þeim liðum sem eru rétt fyrir ofan okkur. Við getum auðveldlega hækkað okkur um tvö til þrjú sæti, næst heimaleikur og við elskum að spila á heimavelli og þar ætlum við að snúa blaðinu heldur betur við," sagði Sindri Snær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert