Þrenna Pedersens í stórsigri Vals

Patrick Pedersen í færi við mark ÍBV en Halldór Páll ...
Patrick Pedersen í færi við mark ÍBV en Halldór Páll Geirsson markvörður náði að stöðva hann í þetta skiptið. mbl.is/Árni Sæberg

Valsmenn settu enn meiri pressu á Stjörnuna í einvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í knattspyrnu í dag þegar Patrick Pedersen skoraði þrennu í 5:1 sigri þeirra á Eyjamönnum í Pepsi-deild karla á Hlíðarenda.

Valsmenn eru nú komnir með 43 stig og eiga tvo leiki eftir. Stjarnan er með 39 stig en á þrjá leiki eftir og mætir KA í Garðabæ á þriðjudaginn.

Eyjamenn eru áfram með 23 stig og í fallhættu fyrir tvær síðustu umferðirnar en þeir eru fjórum stigum fyrir ofan Fjölni sem er í fallsæti.

Pedersen er orðinn markahæstur í deildinni með 16 mörk en hann átti stoðsendingu auk þrennunar. Haukur Páll Sigurðsson og Guðjón Pétur Lýðsson skoruðu líka fyrir Val en Atli Arnarson gerði mark ÍBV sem var yfir í hálfleik.

Eyjamenn komu mjög frískir til leiks á Hlíðarenda og settu Íslandsmeistarana undir talsverða pressu framan af fyrri hálfleik. Það skilaði árangri á 20. mínútu þegar Atli Arnarson skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf Diogo Coelho frá vinstri, 0:1.

Dion Acoff fékk dauðafæri til að jafna fyrir Val á 26. mínútu þegar hann slepp einn innfyrir vörnina eftir sendingu Einars Karls Ingvarssonar en hann renndi boltanum framhjá stönginni vinstra megin.

Aftur munaði litlu að Valsmenn jöfnuðu á 42. mínútu þegar þeir fengu þrjú færi í sömu sókninni. Halldór Páll Geirsson varði vel og varnarmenn ÍBV náðu að lokum að afstýra hættunni. Eyjamenn fóru því með forystu inn í leikhléið.

Valsmenn settu meiri kraft í sóknarleikinn frá byrjun síðari hálfleiks og þeir náðu að jafna á 56. mínútu þegar Patrick Pedersen fékk sendingu inní vítateiginn frá Andra Adolpssyni og renndi boltanum undir Halldór Pál markvörð, 1:1.

Þeir fylgdu því heldur betur eftir. Á 59. mínútu skoraði Haukur Páll Sigurðsson með þrumuskalla upp í vinstra hornið eftir fyrirgjöf Einars Karls Ingvarssonar, 2:1.

Og á 61. mínútu kom þriðja markið á fimm mínútum þegar Pedersen fékk boltann frá Kristni Frey, lék á varnarmann, inní vítateiginn og skoraði af yfirvegun sitt annað mark, 3:1.

Valsmenn voru ekki hættir. Á 65. mínútu sendi Acoff boltann á Pedersen við vítateigslínuna, hann komst framhjá þremur varnarmönnum og sendi boltann í hægra hornið, 4:1. Fjögur mörk á níu mínútum og þrenna hjá Dananum.

Þar með voru úrslitin hreinlega ráðin og Valsmenn með allt í sinni hendi.

Á 88. mínútu skoraði Guðjón Pétur Lýðsson fimmta mark Vals eftir að Eyjamenn misstu boltann og Pedersen renndi boltanum til hans, 5:1.

Valur 5:1 ÍBV opna loka
90. mín. Einar Karl Ingvarsson (Valur) á skot framhjá Frá vítateig en framhjá hægra megin.
mbl.is