Tímabilið búið hjá Pétri

Pétur Viðarsson í baráttu við Stjörnumanninn Guðjón Baldvinsson.
Pétur Viðarsson í baráttu við Stjörnumanninn Guðjón Baldvinsson. mbl.is/Valli

Fimm leikmenn úr Pepsi-deild karla í knattspyrnu voru úrskurðaðir í leikbann á fundi aganefndar KSÍ í gær.

Pétur Viðarsson úr FH var úrskurðaður í tveggja leikja bann sem þýðir að hann hefur lokið keppni í sumar en hann verður í banni í síðustu tveimur leikjum FH í deildinni, gegn Val og Stjörnunni. Pétur fékk rautt spjald í leiknum gegn Víkingi vegna mótmæla við aðstoðardómarann en Pétur var þá kominn á bekkinn. Þetta var annað rauða spjald hans í sumar.

Félagi hans, Steven Lennon, fékk einnig rautt spjald í leiknum sem þýðir að hann verður í banni í leiknum á móti Val á sunnudaginn.

Íslandsmeistarar Vals verða án fyrirliðans Hauks Páls Sigurðssonar í leiknum á móti FH en Haukur er kominn í eins leiks bann vegna sjö gulra spjalda.

Þá voru Grindvíkingarnir Brynjar Ásgeir Guðmundsson og Björg Berg Bryde úrskurðaðir í eins leiks bann og missa af leiknum á móti KA á Akureyri á sunnudaginn.

Þessir voru úrskurðir í leikbann úr Pepsi-deild karla:

2 - Pétur Viðarsson, FH
1 - Steven Lennon, FH
1 - Haukur Páll Sigurðsson, Val
1 - Brynjar Ásgeir Guðmundsson, Grindavík
1 - Björg Berg Bryde, Grindavík

Þessir voru úrskurðir í leikbann úr Inkasso-deildinni:

1 - Alex Freyr Elísson, Fram
1 - Davíð Sigurðsson, Haukum
1 - Albert Hafsteinsson, ÍA
1 - Axel Sigurðarson, ÍR
1 - Gísli Martin Sigurðsson, ÍR
1 - Sigurður Marinó Kristjánsson, Magna
1 - Arnór Björnsson, Njarðvík
1 - Hrovje Tokic, Selfossi
1 - Kenan Turudija, Selfossi
1 - Baldvin Már Baldvinsson, Þrótti R. (liðsstjórn)




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert