Við erum ekki hættir hér

Alex Þór Hauksson átti góðan leik á miðjunni.
Alex Þór Hauksson átti góðan leik á miðjunni. mbl.is/Árni Sæberg

Alex Þór Hauksson, miðjumaður Stjörnunnar, var svekktur eftir 1:1-jafntefli á móti KA í Pepsi-deild karla í fótbolta í kvöld. Úrslitin þýða að Stjarnan er þremur stigum frá toppliði Vals þegar aðeins tvær umferðir eru eftir. 

„Það er mjög erfitt að taka þessu. Við sóttum, sóttum og sóttum. Þetta var mjög erfitt eftir að þeir skoruðu en við sýndum karakter og náum góðu marki. Við skorum svo annað og ég veit ekki hvort það hefði átt að standa. Ég verð að treysta dómurunum,“ sagði Alex í samtali við mbl.is eftir leik. 

„Við gáfum allt í þetta en því miður er jafntefli niðurstaðan. Við hefðum mátt færa boltann hraðar, þeir eru mjög þéttir. Við hefðum mátt spila upp á breiddina betur og koma með fyrirgjafir. Það gekk þegar við náðum því en við gerðum það ekki nógu oft.“

Þrátt fyrir að Valsmenn séu í góðri stöðu til að verja Íslandsmeistaratitil sinn, hefur Alex enn trú á að Stjarnan geti orðið meistari. 

„Við ætlum að klára okkar leiki og sjá hvert það skilar okkur. Það getur allt gerst í þessum bolta og ég hef fulla trú á að FH og Keflavík geti orðið Völsurum erfið. Við stefnum á annan titil og við gerum allt í okkar valdi til að ná honum, við erum ekki hættir hér,“ sagði Alex Þór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert