„Vorum bara lélegir, hundlélegir“

Andrés Már Jóhannesson í baráttunni við Elias Tamburini í leik …
Andrés Már Jóhannesson í baráttunni við Elias Tamburini í leik Fylkis og Grindavíkur fyrr í sumar. mbl.is/Valli

„Allt, við vorum lélegir og það verður bara að segjast eins og er,“ svaraði Fylkismaðurinn Andrés Már Jóhannesson tæpitungulaust aðspurður hvað hefði farið úrskeiðis í leik liðsins í 3:0-tapi á heimavelli gegn Breiðabliki í 20. umferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu í kvöld. „Það þýðir ekki að velta sér meira upp úr þessum, við vorum bara lélegir, hundlélegir.

Fylkir er þremur stigum frá Fjölni í fallsæti en þau lið mætast einmitt hér á Floridana-vellinum í lokaumferð Íslandsmótsins. Þar áður heimsækja Fylkismenn KR í Vesturbæinn og segir Andrés stefnuna setta á úrslit þar.

„Við verðum að gleyma þessu og stíga upp, þetta er áfram í okkar höndum. Það eru tveir leikir eftir og við þurfum að klára þá. Við förum í Vesturbæinn til að ná í úrslit.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert