„Hef ekki trú á því en vonandi“

Ólafur fylgist með sínum mönnum í leiknum gegn Rosenborg í …
Ólafur fylgist með sínum mönnum í leiknum gegn Rosenborg í sumar. Ljósmynd/Ole Martin

Valsmenn geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu karla á sunnudaginn en þá fer fram næst síðasta umferð Pepsi-deildarinnar.

Valur, sem er ríkjandi Íslandsmeistari, er með þriggja stiga forskot á Stjörnuna en nýkrýndir bikarmeistarar Stjörnunnar urðu að sætta sig við 1:1 jafntefli gegn KA-mönnum í fyrrakvöld.

Fari Valur með sigur af hólmi gegn FH í Kaplakrika og Stjörnunni tekst ekki að vinna ÍBV í Eyjum verða Valsmenn Íslandsmeistarar. Val gæti líka nægt jafntefli en Stjarnan tapar í Eyjum.

„Ég hef ekki trú á því að þetta klárist á sunnudaginn en vonandi,“ sagði Ólafur Jóhannesson, annar af þjálfurum Vals, í samtali við mbl.is en Ólafur getur fagnað Íslandsmeistaratitlinum á sínum gamla heimavelli. FH varð þrívegis Íslandsmeistari undir hans stjórn, 2004, 2005 og 2006.

„Við erum í bílstjórasætinu eins og oft er sagt en fótboltinn er nú þannig að það getur allt gerst. Við erum á þeim stað sem við viljum vera og þetta er undir okkur komið. Ef okkur hefði boðið okkur að vera með þriggja stiga forystu þegar tvær umferðir eru eftir hefðum við alltaf þegið það.

Leikir FH og Vals eru aldrei auðveldir fyrir annað hvort liðið alveg sama hver staða þeirra í deildinni er. Þetta eru tvö af stærstu félögunum á landinu og það er alltaf smá rígur á milli þeirra. Við búum okkur undir mjög erfiðan leik,“ sagði Ólafur Jóhannesson en Valur varð Íslandsmeistari undir hans stjórn í fyrra og bikarmeistari 20015 og 2016.

Fyrirliðinn Haukur Páll Sigurðsson tekur út leikbann á sunnudaginn en allir aðrir leikmenn liðsins eru klárir í slaginn að sögn Ólafs.

Í lokaumferðinni tekur Valur á móti botnliði Keflavíkur en Stjarnan fær FH í heimsókn.

Leikirnir í næst síðustu umferðinni á sunnudaginn eru:

14.00 KA - Grindavík
14.00 KR - Fylkir
14.00 ÍBV - Stjarnan
14.00 FH - Valur
14.00 Keflavík - Víkingur
14.00 Fjölnir - Breiðablik

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert