KSÍ dregur leikbann Sigurðar tilbaka

Sigurður Marinó Kristjánsson er lykilmaður í liði Magna.
Sigurður Marinó Kristjánsson er lykilmaður í liði Magna. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Aga og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands hefur dregið leikbann Sigurðar Marinó Kristjánssonar, leikmanns Magna í Inkasso-deild karla, tilbaka. Sigurður var úrskurðaður í bann í vikunni þar sem hann átti að hafa fengið sitt sjöunda gula spjald í sumar í leik gegn Njarðvík í 20. umferð deildarinnar.

Sigurður átti hins vegar aldrei að fá spjald í umræddum leik, þar sem hann var farinn af velli þegar umrætt brot átti sér stað. Bjarni Aðalsteinsson, liðsfélagi Sigurðar hjá Magna, átti að fá spjaldið fyrir tæklingu á 48. mínútur en Sigurður fór af velli á 40. mínútu leiksins. 

Sigurður er því löglegur með liði Magna á morgun þegar liðið sækir ÍR heim í lokaumferð Inkasso-deildar karla í knattspyrnu en leikurinn er úrslitaleikur um það, hvort liðið fellur niður í 2. deild. ÍR er í tíunda sæti deildarinnar með 18 stig en Magni er í ellefta sætinu með 16 stig og Magnamenn verða því að vinna á morgun, til þess að halda sæti sínu í deildinni.

Úrskurð Aga og úrskurðarnefndar KSÍ má sjá hér fyrir neðan:

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur með heimild í grein 9.3. leiðrétt úrskurð nefndarinnar frá því 18. september sl. þar sem leikmaður nr. 20 hjá Magna, Sigurður Marinó Kristjánsson, var úrskurðaður í 1 leiks bann vegna 7 gulra spjalda. 

Í ljós hefur komið að rangar upplýsingar voru skráðar í skýrslu í leik Njarðvíkur og Magna sem fram fór þann 8. september 2018 en þar var leikmaður nr. 20 Sigurður Marinó Kristjánsson ranglega skráður með áminningu á mínútu 45’+3. Dómari leiksins og aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hafa nú staðfest að áminninguna hlaut leikmaður nr. 29 hjá Magna, Bjarni Aðalsteinsson. Hefur úrskurður aga- og úrskurðarnefndar KSÍ, dags. 18 september 2018 og leikskýrsla leiks Njarðvíkur og Magna verið lagfærð í samræmi við það. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert