Vildu taka þetta skref í búningi Keflavíkur

Lið Keflavíkur sem tryggði sér sæti í Pepsi-deildinni.
Lið Keflavíkur sem tryggði sér sæti í Pepsi-deildinni. Ljósmynd/Víkurfréttir

Kvennalið Keflavíkur í knattspyrnu náði ákveðnum lágpunkti sumarið 2015 þegar liðið endaði með aðeins eitt stig í sínum riðli í 1. deildinni.

Gunnar Magnús Jónsson tók þá við liðinu og ungum afar efnilegum leikmönnum sem rétt voru að byrja að fóta sig í meistaraflokki. Með þá leikmenn enn á táningsaldri, og nokkra reyndari bandaríska leikmenn í bland, er liðið nú öruggt um að spila í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð, eftir níu ár í 1. deildinni.

„Það ríkir mikil gleði yfir því að Keflavík snúi nú loksins aftur í efstu deild,“ segir Natasha Anasi, fyrirliði Keflavíkur. Natasha lék í þrjú ár með ÍBV í efstu deild við afar góðan orðstír áður en hún flutti til Keflavíkur í fyrra (þar sem hún býr með kærasta sínum og eins árs gömlu barni). Natasha veit því vel út í hvað Keflavíkurliðið er að fara á næstu leiktíð, betur en flestir samherja hennar; unglingalandsliðskonur sem leikið hafa í 1. deildinni allan sinn feril.

Gáfum sterku liðunum góða keppni

„Í vor fengum við að spila við nokkur af liðunum úr Pepsi-deildinni og ég get alla vega sagt að okkar unga lið mun alltaf geta sett mjög mikla orku í hvern leik, og það skilar liðinu langt. Við gátum gefið þessum liðum góða keppni, þó að okkur vantaði erlenda leikmenn. Það eru miklir íþróttamenn í þessu liði, við eigum mjög fljóta leikmenn og einnig sterka, og þær geta sett mikla pressu á andstæðingana. Við getum verið mjög beittar í skyndisóknum og þar spilar hraði Sveindísar [Jane Jónsdóttur] stóran þátt. Mörg lið þurfa að hafa sérstakan vara á gagnvart henni og það gefur kantmönnum okkar pláss til að sækja í. Vörnin okkar er líka vel skipulögð,“ segir Natasha, sem er augljóslega mikill leiðtogi í liðinu. Hún bætir við:

„Við munum þurfa að breyta okkar leik og það verður enn mikilvægara að halda alltaf skipulagi. Við megum ekki gleyma okkur því þá refsa þessi lið okkur, eins og bikarleikur okkar gegn ÍBV sýndi. Við þurfum líka að nýta betur færin okkar fyrir framan markið því við munum ekki fá eins mörg og í sumar. Þetta eru helstu atriðin sem við þurfum að bæta fyrir næsta tímabil.“

Sjá alla greinina um Keflavík sem leikur í deild þeirra bestu á næsta ári í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert