Afturelding og Grótta upp en Höttur niður

Afturelding stóð uppi sem sigurvegari í 2. deild.
Afturelding stóð uppi sem sigurvegari í 2. deild. mbl.is/Hari

Lokaumferð 2. deildar karla í knattspyrnu var að ljúka og óhætt er að segja að dramatíkin hafi verið mikil. Afturelding og Grótta tryggðu sæti sitt í 1. deild en Höttur og Huginn falla í 3. deild.

Afturelding var á toppnum fyrir lokaumferðina en var 1:0 undir gegn Hetti í hálfleik. Vestri komst á meðan yfir gegn Kára og virtist vera að fylgja Gróttu upp lengi vel, áður en Mosfellingar vöknuðu og unnu að lokum 3:1-sigur á Hetti, sem um leið féll úr deildinni.

Vestri gerði þó sitt með því að vinna Kára 2:1 á útivelli en endar hins vegar í þriðja sæti, stigi frá Gróttu og Aftureldingu. Grótta vann 4:0 sigur á Hugin og hafnar í öðru sæti en Afturelding vinnur á markatölu.

Leiknir F. bjargaði sér svo frá falli með 3:0-sigri á Víði og Tindastóll vann Völsung 3:2 og tryggði endanlega sæti sitt á meðan Höttur fer niður eins og áður segir.

Lokastaðan í deildinni: Afturelding 45, Grótta 45, Vestri 44, Völsungur 40, Kári 38, Þróttur V. 33, Fjarðabyggð 28, Tindastóll 24, Víðir 23, Leiknir F. 22, Höttur 21, Huginn 6.

Úrslitin í lokaumferðinni:

Höttur – Afturelding 1:3
Tindastóll – Völsungur 3:2
Leiknir F. – Víðir 3:0
Þróttur V. – Fjarðabyggð 3:1
Grótta – Huginn 4:0
Kári – Vestri 1:2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert