Gott að vinna besta lið landsins

Dóra María Lárúsdóttir skori eitt marka Vals.
Dóra María Lárúsdóttir skori eitt marka Vals. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Það er gott að klára þetta sterkt og vinna besta lið landsins. Það var kominn tími á að við næðum úrslitum á móti þessum toppliðum," sagði Dóra María Lárusdóttir, leikmaður Vals, eftir 3:2-sigur á Breiðabliki í Pepsi-deild kvenna í fótbolta í dag. 

Breiðablik tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í síðustu umferð og var Dóra sérstaklega ánægð með að vinna toppliðið. 

„Maður horfir helst á þessa toppleiki og þetta er eini leikurinn sem við höfum unnið í þeim. Við gerðum jafntefli við Þór/KA og það var kærkomið að ná loksins að vinna. Það var óþarfi að missa þetta niður í smá spennu í lokin því við vorum með tök á leiknum."

Dóra skoraði sitt fyrsta mark í tvö ár í dag, en síðasta mark kom einmitt á móti Breiðabliki í lokaumferðinni árið 2016.

„Mér finnst gaman að skora á móti Breiðablik í lokaumferðinni. Það er langþráð að ná að skora. Maður er alltaf að færast aftar á völlinn svo það hefur verið minna um mörk undanfarin ár, en það er alltaf ljúft að setja hann."

Valur endar í fjórða sæti deildarinnar og vill Dóra sjá liðið gera betur á næstu leiktíð. 

„Við vitum að við erum með frábært lið og sterka liðsheild. Við viljum gera betur en við gerðum í ár," sagði Dóra María Lárusdóttir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert