Markalaust hjá HK/Víkingi og KR

HK/Víkingur og KR gerðu jafntefli í dag.
HK/Víkingur og KR gerðu jafntefli í dag. mbl.is/Hari

HK/Víkingur tók á móti KR í síðustu umferð Pepsi deildar kvenna í knattspyrnu dag og leiknum lauk með markalausu jafntefli. Liðin höfðu þar af leiðandi ekki sætaskipti, en væntanlega eygðu KR-ingar þá von að koma sér ofar í töflunni.

KR byrjaði leikinn af mun meiri krafti, og var með boltann mun meira en heimakonur sem lágu meira til baka og byggðu leik sinn upp á skyndisóknum. Það hefur eflaust ekki verið planið, en það var einhver taugaspenna hjá ungu liði HK/Víkings. Þar var Kader Hancar algjör lykilmanneskja og átti marga góða spretti, en náði þó ekki að skapa sér hættuleg færi. Þar tóku á móti henni til skiptis, Ingunn og Lilja Dögg í vörn KR. Spil KR byggðist allt í kringum Katrínu Ómarsdóttur en þau færi sem KR fékk lentu hjá Tijönu Krstic.

KR fékk sannkallað dauðafæri til að komast yfir á 41. mínútu eftir frábært samspil KR. Boltinn barst út á Betsy Hassett sem komst upp að endalínu og sendi boltann út í markteig á Krstic. Hún fékk boltann á hægri, sem er hennar síðri fótur, og náði skoti á markið en Katrín Hanna varði vel í marki HK/Víkings. Blóðugt að nýta þetta ekki eftir að KR hafði verið miklu betri, en leikur þeirra dalaði aðeins eftir hálfleik.

Seinni hálfleikur varð ögn jafnari en sá fyrri og HK/Víkingskonur mættu betur til leiks eftir leikhlé, sóttu á fleirum og héldu boltanum betur. Kader Hancar var lykilmanneskja í öllum þeirra aðgerðum, og komst til að mynda ein á móti Ingibjörgu í markinu en hitti ekki markið. Sprækastar í sóknarleik heimamanna voru, auk Kader, þær Karólína Jack og Margrét Sif.

Gestirnir náðu ekki taktinum á síðasta þriðjungi en það var hin unga og efnilega Margrét Edda sem sýndi ágætis takta, ásamt lykilmanneskjunum Katrínu Ómarsdóttur og Betsy Hassett. Opin færi voru nær engin, né heldur árangursrík einstaklingsframtök í boði nálægt vítateig andstæðinganna. Merkilegt að KR hafi ekki látið reyna á reynslulítinn markmann HK/Víkings í dag sem náði þó að halda markinu hreinu.

Markalaust, tíðindalítið en baráttuleikur hér í Fossvoginum. Bæði félög þurfa að hugsa sinn gang fyrir næstu leiktíð, ætli þau sér að lenda ofar í töflunni.

HK/Víkingur 0:0 KR opna loka
90. mín. Betsy Hassett (KR) á skot framhjá Þarna rennur Betsy í skotinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert