Mjög erfitt að kveðja

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, er ekki að leggja skóna …
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, er ekki að leggja skóna á hilluna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það var gríðarlega mikilvægt að klára þetta tímabil á sigri og að kveðja þjálfarateymið með þremur stigum,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar í samtali við mbl.is, eftir 2:0-sigur liðsins gegn Þór/KA í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í Garðabænum í dag.

„Mér fannst þær betri fyrsta hálftímann í dag en eftir að við skoruðum fyrsta markið tókum við aðeins yfir leikinn. Þetta var samt sem áður jafn leikur að spila og meira formsatriði fyrir bæði lið að reyna klára tímabilið með smá sóma. Það er ekkert leyndarmál að við ætluðum okkur báða titlana í sumar en seinni umferðin hjá okkur var góð og það er eitthvað sem við munum byggja á.„

Eins og mbl.is greindi frá um síðustu helgi var Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar að stýra sínum síðasta leik með liðið. Þá hætta Andrés Ellert Ólafsson og Þóra Björg Helgadóttir einnig í þjálfarateymi liðsins og Ásgerður viðurkennir að það hafi verið erfitt að kveðja þau í leikslok.

„Mér fannst persónulega mjög erfitt að kveðja bæði Óla og Ella hérna í dag. Elli hefur þjálfað mig undanfarin tíu ár og Óli síðastliðinn fimm þannig að þetta var mjög tilfinningaþrungin stund fyrir mig. Við höfum átt frábæra tíma með þeim og núna er bara að horfa fram veginn og halda uppi því góða starfi sem þeir hafa unnið hjá félaginu og taka þessa titla aftur í Garðabæinn.“

Ásgerður er ekki af baki dottinn og segir ennþá langt í að hún leggi knattspyrnuskóna á hilluna. 

Ég á nóg eftir í boltanum og ég er á góðum aldri ennþá. Ég verð því áfram með Stjörnuliðinu á næstu leiktíð og er langt frá því að vera hætt, sagði Ásgerður Stefanía.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert